Vegagerð og umferð norður Strandir

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:49:46 (1423)

2002-11-13 17:49:46# 128. lþ. 29.15 fundur 219. mál: #A vegagerð og umferð norður Strandir# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:49]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi spyr hv. þm. Jón Bjarnason: ,,Hver er áætlun um framkvæmdir og verklok á vel uppbyggðum vegi með bundnu slitlagi norður Strandir frá Brú að Hólmavík?`` Í gildandi langtímaáætlun í vegagerð fyrir árin 1999--2010 er ekki tekin afstaða til þess hvort umræddur vegur verði byggður upp eða hvort nýr vegur verði byggður yfir Tröllatunguheiði en gert er ráð fyrir fjárveitingu í aðra hvora framkvæmdina á árunum 2007--2010. Gera verður ráð fyrir að fjallað verði um þetta mál í tengslum við gerð samgönguáætlunar nú í vetur.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Hversu mikil umferð er um veginn norður Strandir úr Kaldrananeshreppi í Árneshrepp og hvernig hefur hún þróast sl. tíu ár, sundurliðað eftir mánuðum?`` Umferðarteljari sem telur umferð allt árið er á Strandavegi við Djúpveg í botni Steingrímsfjarðar. Umferðarteljarinn hefur verið á þessum stað lengi og hefur ekki sýnt merkjanlega breytingu á sumarumferð sem hefur verið 150--160 bílar á dag að meðaltali. Ársumferð, þ.e. meðalumferð á dag allt árið, hefur aukist úr 70--80 bílum í 80--90 bíla á dag á sl. tíu árum sem teljast verður eðlilegt þar sem vetrarþjónusta hefur aukist á leiðinni milli Hólmavíkur og Drangsness. Umferð á Strandavegi norðan Drangsnesvegar hefur verið könnuð nokkrum sinnum með skammtímatalningum og hefur sumarumferð verið á bilinu 50--60 bílar á dag að meðaltali og ekki farið vaxandi. Tekið skal fram að umferð var talin þarna nú í sumar en niðurstöður þeirrar talningar liggja ekki fyrir á þessari stundu.

Í þriðja lagi spyr þingmaðurinn: ,,Hver er verkáætlun um uppbyggingu vegarins um Kaldrananeshrepp og Árneshrepp og hvenær verður uppbyggingu góðs malarvegar norður í Árneshrepp lokið?`` Svar mitt er að ekki liggur fyrir heildaráætlun um uppbyggingu Strandavegar norðan Steingrímsfjarðar. Þær endurbætur sem gerðar hafa verið á veginum á undanförnum árum hafa miðast að því að lengja opnunartíma hans að hausti og flýta opnun að vori. Gert hefur verið ráð fyrir að halda slíkum endurbótum áfram á næstu árum en um það verður að sjálfsögðu fjallað við gerð fjögurra ára áætlunar nú í vetur.