Upplýsingamiðstöðvar í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:08:51 (1431)

2002-11-13 18:08:51# 128. lþ. 29.17 fundur 253. mál: #A upplýsingamiðstöðvar í ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:08]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Einn þeirra grunnþátta sem afar mikilvægur er fyrir íslenska ferðaþjónustu eru upplýsingamiðstöðvar og þróunarstarf sem tengist þeim, að kynna þann markað og þá möguleika sem gefast. Þetta er starf sem snertir ekki einstaka aðila í ferðaþjónustu heldur allan fjöldann. Að þessum grunnþætti gæti hið opinbera einmitt komið. Ég legg áherslu, eins og ég sagði við umræðuna um fyrri fyrirspurn mína, að markaðsstarfið í ferðaþjónustu er grunnstarfið. Til þess þarf að veita fjármagn en ferðaþjónustuaðilarnir ráða ekki við það sjálfir. Ég tel reyndar að fjárhagsstaða þeirra sé með þeim hætti að þeir þurfi frekar á stuðningi að halda en hitt.

Það er dapurlegt, herra forseti, að þjónustufyrirtæki sem hafa lagt mikið frumkvæði og kraft í að efna til nýrrar afþreyingar og verkefna, hvort sem það er rekstur á hestaleigum, náttúruskoðun, fljótasiglingar eða annað, leggja í mikið þróunar- og frumkvöðulsstarf sem tekur fjölmörg ár að fá til að skila hagnaði, hafa ekki aðgang að neinu þolinmóðu fé til að byggja þetta starf upp.

Rekstur upplýsingamiðstöðvar getur þar skipt miklu máli. Því spyr ég, herra forseti, hæstv. samgrh.:

1. Hversu margar upplýsingamiðstöðvar í ferðaþjónustu eru starfandi hér á landi og hvar eru þær?

2. Hvaða reglur gilda um starfsemi slíkra upplýsingamiðstöðva, m.a. varðandi kröfur um þjónustu?

3. Hver er stuðningur

a. ríkis,

b. sveitarfélaga,

c. annarra opinberra aðila við einstakar upplýsingamiðstöðvar?

4. Hver er stefna ráðherra sem yfirmanns ferðamála varðandi hlutverk upplýsingamiðstöðva í ferðaþjónustu og þátt opinberra aðila í fjármögnun þeirra?

Ég tel, herra forseti, að það hafi verulega skort á skýra stefnumörkun hvað varðar verkefni, rekstur, hlutverk og stöðu upplýsingamiðstöðva í uppbyggingu þessarar stóru atvinnugreinar Íslendinga. Þess vegna er mjög mikilvægt að fá svör við þeim spurningum sem ég hef hér lagt fram.