Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:26:41 (1438)

2002-11-13 18:26:41# 128. lþ. 29.18 fundur 265. mál: #A Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:26]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Ég held að umræðan einmitt um þetta tiltekna mál lýsi sér vel í því að við þurfum hugsanlega á höfuðborgarsvæðinu að endurskipuleggja, forgangsraða öllum samgönguframkvæmdum á svæðinu. Er það m.a. í samræmi við þær þáltill. sem ég hef flutt um stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu þar sem við þurfum í samvinnu við sveitarfélögin að hugsa þær samgönguframkvæmdir algjörlega upp á nýtt, fara að hugsa um jarðgöng o.fl. til þess að efla og auka öryggi almennings í samgöngukerfinu.

Tryggingafélögin hafa lagt fram skýrslu þar sem þau benda á að mislæg gatnamót á Miklubraut og Kringlumýrarbraut mundu fækka umferðarslysum um 92%. Í þeirri skýrslu eru tölur sem við getum ekki litið fram hjá þegar við erum að ákveða svona stórar og miklar samgönguframkvæmdir. Og þá er spurningin hvað hægt er að gera með tilliti til fjármagnsins. Það er spurning hvort við þurfum ekki að forgangsraða með tilliti til umferðaröryggis.