Atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:58:54 (1451)

2002-11-13 18:58:54# 128. lþ. 29.22 fundur 218. mál: #A atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:58]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. kærlega fyrir þetta greinargóða svar. Ég átta mig á því að mjög mikið verk og vinnu þarf að leggja í þá miklu reglugerð sem fylgir lögum um útlendinga sem taka gildi um næstu áramót. En ég ítreka að á gestir á fundum allshn. kölluðu ítrekað, ár eftir ár, á að þetta yrði gert, þ.e. að þetta yrði fært á eina hendi, ekki bara, eins og ég segi, fyrirtækjunum og þeirra samtökum til hagsbóta heldur ekki síður útlendingum sem sækja um atvinnu- og dvalarleyfi.

Með þessari fyrirspurn má kannski segja að sem þingmaður sé ég að gæta ákveðins eftirlitshlutverks gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held að það sé gott að löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið skiptist á upplýsingum og skoðunum og fyrir mitt leyti er ég afar ánægð með svarið sem ég fékk frá frá hæstv. dómsmrh. og skil afar vel að það þarf að forgangsraða í þessu eins og öðru. Ég tek heils hugar undir með ráðherra að leggja þarf mikla og vandaða vinnu í þá reglugerð sem kemur til með að byggja á lögum um útlendinga. Hún þarf að vera mjög vönduð. Engu að síður heyri ég á ráðherra að hún ætlar að taka þetta upp við hæstv. félmrh. og er það vel.