Tollgæsla í Grundartangahöfn

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 19:01:00 (1452)

2002-11-13 19:01:00# 128. lþ. 29.23 fundur 238. mál: #A tollgæsla í Grundartangahöfn# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[19:01]

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Samkvæmt 1. gr. tollalaga eru aðaltollhafnir skilgreindar sem staðir þar sem för í utanlandsferðum eiga að fá fyrstu og síðustu afgreiðslu hér á landi og hvers konar tollmeðferð vöru má fara fram. Í lögunum eru taldar upp og skilgreindar hverjar eru aðaltollhafnir.

Með breytingum sem urðu á tollalögum á Alþingi sl. vor var Grundartangahöfn lögfest sem aðaltollhöfn. Grundartangahöfn er ein umsvifamesta vöruflutningahöfn landsins og í höfninni ferma og afferma fyrst og fremst millilandaskip, hátt í 200 á ári. Flutningar um höfnina tengjast járnblendiverksmiðjunni og Norðuráli en með uppbyggingu þessara fyrirtækja undanfarin ár hafa umsvif við höfnina aukist mjög mikið.

Þrátt fyrir þessu miklu umsvif í Grundartangahöfn hefur aðeins einn lögreglumaður sýslumannsembættisins í Borgarnesi haft með höndum tollafgreiðslu í höfninni. Samkvæmt upplýsingum mínum hefur þessi lögreglumaður haft þetta sem aðalstarf í um eða yfir tíu ár. Á þeim tíma hefur ekki verið tollvörður við starfið og sýslumannsembættið í Borgarnesi hefur ekki fengið sérstakar fjárheimildir til verkefnisins. Þá hafa ekki verið veittar fjárheimildir til að koma upp nauðsynlegum búnaði á hafnarsvæðinu fyrir lögreglumanninn sem sinnir þessu verkefni.

Augljóst er að umsvif tollgæslu eru allt of lítil miðað við umfang hafnarinnar sem býður upp á hættu á ólöglegum innflutningi. Mesta hættan í því sambandi er ólöglegur innflutningur eiturlyfja. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi stórhert almennt tolleftirlit með það að markmiði að koma í veg fyrir ólöglegan innflutning eiturlyfja á það sama ekki við í Grundartangahöfn. Sveitarstjórnarmenn, hafnaryfirvöld og aðrir aðilar hafa ítrekað komið á framfæri áhyggjum sínum af þessu máli. Hefur það m.a. komið fram í ályktunum bæjarstjórnar Borgarbyggðar og Akraneskaupstaðar þar sem skorað var á stjórnvöld að tryggja fjármagn til að halda uppi nauðsynlegri tollgæslu í Grundartangahöfn. Ég tek undir með þessum aðilum og tel þetta mál afar brýnt.

Í framhaldi af því sem áður er sagt og því að Grundartangahöfn er nú orðin aðaltollhöfn samkvæmt tollalögum, spyr ég hæstv. dómsmrh. hvort uppi séu áform um að efla tollgæslu í Grundartangahöfn.