Áhrif nýs launakerfis á launamun kynjanna

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 19:18:17 (1459)

2002-11-13 19:18:17# 128. lþ. 29.24 fundur 320. mál: #A áhrif nýs launakerfis á launamun kynjanna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[19:18]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda ágætar ábendingar í síðari ræðunni. Ég vil kannski ekki taka undir það sem fram kom í fyrri ræðu fyrirspyrjanda að gefa mætti sér það fyrir fram að hið dreifstýrða launakerfi hefði sjálfkrafa í för með sér meiri launamun milli karla og kvenna. En hugmyndin var auðvitað sú að fylgjast með því hvort það gerðist, fylgjast með því hvort þetta nýja kerfi hefði slíkar neikvæðar afleiðingar í för með sér, því hugmyndin var auðvitað ekki sú þegar farið var inn á þær brautir árið 1997 að fela forstöðumönnum stofnana meiri trúnað og meiri ábyrgð í þessum efnum.

Ég tel reyndar að almennt séð hafi okkur miðað nokkuð vel að því er varðar að draga úr launamun kynjanna hjá ríkinu. Auðvitað er það hárrétt hjá þingmanninum að hin nýja fæðingarorlofslöggjöf sem hér var samþykkt fyrir tveimur árum og er smám saman að koma til framkvæmda er verulegt innlegg í þau mál. Ég tel að þar hafi verið á ferðinni eitthvert stærsta skref sem stigið hefur verið í jafnréttismálum á Íslandi, því það mun draga úr því að vinnuveitendur veigri sér við því að ráða konur til starfa, sem við þekkjum að hefur verið vandamál.