Utandagskrárumræða um kræklingarækt

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 10:44:03 (1467)

2002-11-14 10:44:03# 128. lþ. 30.91 fundur 235#B utandagskrárumræða um kræklingarækt# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[10:44]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram ágætisumræða um málefni kræklingaræktar og hvernig við getum brugðist við þeim vanda sem uppi er í þeirri grein. Um þetta voru allir sammála. Allir voru sammála um að við reyndum að finna á þessu lausn og reyndum að koma þessu máli þannig fyrir að það væri til sóma fyrir þingið og framdráttar fyrir greinina. Það var aðeins spurning um það hvernig menn ætluðu nákvæmlega að ræða það hérna, þ.e. hvort það ætti að ræða í fyrirspurnaformi, við utandagskrárumræðu, í óundirbúnum fyrirspurnum eða með öðru þingmáli þangað til að því kom að hv. 4. þm. Reykn. fór að tala í þessu máli með dæmalausum útúrsnúningi, alveg dæmalausum útúrsnúningi og fór að væna okkur um að við værum að reyna að koma í veg fyrir umræðuna, við sem fögnuðum þessari umræðu, við sem fögnuðum því að verið væri að taka þetta mál upp með einhverjum hætti hér. Þetta er alveg ótrúlegt dæmi um útúrsnúning sem verður nú ekki þessu góða máli til framdráttar. Hins vegar held ég að viðbrögð annarra þingmanna í dag sýni að hv. þm. talaði algjörlega holum hljómi og hafði engan hljómgrunn fyrir þessum ótrúlega útúrsnúningi sínum.