Málefni Sementsverksmiðjunnar

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 10:49:36 (1470)

2002-11-14 10:49:36# 128. lþ. 30.92 fundur 236#B málefni Sementsverksmiðjunnar# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[10:49]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talar um tómlæti án þess að reyna að rökstyðja mál sitt og hann fullyrðir líka að sú sem hér stendur hafi ekki áhuga á málefnum fyrirtækisins sem er alrangt. Ég deili áhyggjum með hv. þm. vegna fyrirtækisins og rekstrarstöðunnar því að hún er þröng og það eru erfiðleikar í rekstrinum.

Stjórn fyrirtækisins sem fer með daglegan rekstur hefur átt fund með eiganda, hefur átt fund með mér og hæstv. fjmrh. um málefni verksmiðjunnar og þar hefur verið farið yfir þessa þætti sem eru vissulega alvarlegir. Það er mikill samdráttur á markaði. Talað er um 40% samdrátt og auðvitað kemur það við.

Við stöndum frammi fyrir því sem við höfum ekki gert áður að fyrirtækið er komið í samkeppni og það er samkvæmt þeim lögum og reglum sem við vinnum eftir á Íslandi. Við vitum að við erum á hinu Evrópska efnahagssvæði og við getum ekki bannað öðrum fyrirtækjum að selja sement hér. Hins vegar, eins og allir vita, hafa gengið kærur og það sem er til athugunar núna hjá Eftirlitsstofnun EFTA er það hvort viðkomandi fyrirtæki viðhafi eðlilega viðskiptahætti á íslenskum markaði. Við vonumst til þess að ekki líði langur tími þar til við fáum svör við því frá ESA hvort svo er eða ekki. Auðvitað skipta þau svör gífurlega miklu máli. Meðan við höfum þau ekki getum við ekki tekið stórar ákvarðanir um framtíðarmarkmið.

Ég vil líka geta þess að verksmiðjan, fyrir utan það að vera mikilvægur vinnustaður á Akranesi, er í öðrum rekstri sem er að eyða efnum, að endurvinna efni sem skiptir miklu máli, og Hagfræðistofnun Háskólans hefur verið fengin til þess að gera úttekt á þjóðhagslegu mikilvægi fyrirtækisins fyrir utan það að framleiða sement.