Málefni Sementsverksmiðjunnar

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 10:52:01 (1471)

2002-11-14 10:52:01# 128. lþ. 30.92 fundur 236#B málefni Sementsverksmiðjunnar# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[10:52]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt að skýr svör komi frá ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra um það með hvaða hætti á að standa að því að verja þessa verksmiðju. Þau hafa ekki komið í umræðum í þinginu. Fyrir fáeinum dögum þegar verið var að ræða um þingmál Vinstri grænna, vildi hæstv. ráðherra ekki upplýsa okkur um hvað til stæði til að verja verksmiðjuna. Fyrir liggur að verð á sementi frá verksmiðjunum sem eru að keppa við verksmiðjuna hér er svipað eða hærra í löndunum í kringum okkur, t.d. í Danmörku, heldur en hérna þannig að ef hér væru eðlilegir viðskiptahættir á ferðinni, þá væru menn að keppa í samkeppnisumhverfi sem ætti að duga Sementsverksmiðjunni. Fjarlægðarverndin ætti að duga miðað við þær tölur um verð á sementi sem hafa komið fram. Þetta liggur allt saman fyrir. En það er greinilegt að verksmiðjurnar í Danmörku eru að selja hér á miklu undirverði miðað við það verð sem hefur verið sett fram og við getum auðvitað ekki liðið það. Mér finnst að það þurfi að vera hægt að grípa til ráðstafana sem allra fyrst en það sem mér finnst skorta er að það sé ljóst, alveg skýrt frá hendi stjórnvalda að þau ætli að verja verksmiðjuna. Ég hef ekki heyrt þær yfirlýsingar enn og ég bíð eftir þeim.