Málefni Sementsverksmiðjunnar

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 10:53:44 (1472)

2002-11-14 10:53:44# 128. lþ. 30.92 fundur 236#B málefni Sementsverksmiðjunnar# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[10:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru að sjálfsögðu orð við hæfi að tala um tómlæti og það eru fullar innstæður fyrir því að tala um tómlæti stjórnvalda þegar fyrir liggur og því er ekki mótmælt að hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans leggst gegn því að fulltrúi ráðuneytisins mæti á upplýsingafund um málefni verksmiðjunnar sem er boðað til af þingmönnum sem hafa haft frumkvæði að því að taka málin upp í þinginu.

Hv. þingmenn Jón Bjarnason og Árni Steinar Jóhannsson hafa sannanlega haft frumkvæði að því að taka upp málefni Sementsverksmiðjunnar hér með tillöguflutningi, og frekar tvær tillögur en ein. Þeir boða síðan til fundar sem er mjög fjölsóttur og það endurspeglar áhugann á málinu á Akranesi en ráðherra telur sér sæma að leggjast gegn því og banna það að fulltrúi ráðuneytisins og eigandans í þessu tilviki mæti á slíkan fund. Það er auðvitað dapurlegt, herra forseti, að verða vitni að því að menn horfi upp á hverja iðngreinina á fætur annarri drabbast niður eða líða undir lok í landinu meðvitundarlítið og einblíni þess í stað á stóriðju.

Við vorum að ræða kræklingarækt áðan sem ráðherra sér ekki ástæðu til að ræða við þingmenn á Alþingi. Við höfum rætt málefni skipaiðnaðarins. Það tók tvö, þrjú ár eftir einkavæðingu Áburðarverksmiðjunnar að leggja áburðarframleiðslu niður í landinu og nú er röðin komin að sementinu. Það virðist vera sem stjórnvöld ætli meðvitundarlítið að horfa á hrein undirboð frá erlendum aðila granda þessari iðngrein í landinu. Hvar verða menn þá staddir með kannski einokun hins erlenda innflytjanda eftir fáein missiri á þessum markaði? Ekki verður það til bóta.

Herra forseti. Það er bæði fullgilt og brýnt að Alþingi taki á þessu máli og þær þingnefndir sem fá nú til umfjöllunar þáltill. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs taki þau mál strax fyrir. Það er þeim mun brýnna að það sé gert þar sem tómlæti og áhugaleysi ríkisstjórnarinnar og hæstv. iðnrh. liggur fyrir.