Málefni Sementsverksmiðjunnar

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 10:56:00 (1473)

2002-11-14 10:56:00# 128. lþ. 30.92 fundur 236#B málefni Sementsverksmiðjunnar# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[10:56]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Beðið er um skýr svör og kannski er það alveg eðlilegt að beðið sé um skýr svör. En ég get ekki gefið skýr svör í dag og auk þess tel ég ekki að erfiðleikar í rekstri fyrirtækisins verði leystir úr ræðustól á Alþingi. Það er ekki þannig. Ég ber fulla virðingu fyrir tillöguflutningi hv. þingmanna Vinstri grænna á Alþingi, en mál verða ekki leyst þannig.

Ég sagði áðan að það skipti miklu máli hvert álit ESA verður á þessum málum, og hvort sem okkur líkar betur eða verr erum við að vinna í því umhverfi á Íslandi að við getum ekki neitað samkeppni. Við getum ekki krafist ríkiseinokunar eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mundi eflaust vilja gera. Við getum það ekki. Við verðum að vinna samkvæmt reglum og verðum við undir í samkeppni, þá getur það verið sárt, en það getur farið svo í ákveðnum tilfellum. Þetta vildi ég segja.

Þegar hv. þm. talar um að ég einblíni á stóriðju, þá er það ekki rétt. Við ræddum einmitt um skipasmíðaiðnaðinn fyrir nokkrum dögum og þar fór ég mjög nákvæmlega yfir það með hv. þm. hvernig iðnrn. hefur beitt sér í þeim málaflokki og þannig mætti lengi telja. Þessi klisja hv. þm. gengur einfaldlega ekki upp en ég skil það ákaflega vel að hann í vandræðagangi sínum noti hana aftur og aftur.