Stjórnsýslulög

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 11:16:35 (1477)

2002-11-14 11:16:35# 128. lþ. 30.1 fundur 348. mál: #A stjórnsýslulög# (rafræn stjórnsýsla) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[11:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi rafrænar kosningar þá lít ég svo til að það sé sérstakt mál en auðvitað má segja að það sem hér er verið að flytja endurspegli ákveðna þróun. Ég hygg að það sé ekkert fráleitt hjá hv. þm. að nefna það til sögu, það sýni í hvaða átt þróunin gengur og þó landsfundur Sjálfstfl. taki þá afstöðu sem hann hefur tekið og ég sem stjórnmálamaður í mínum flokki fylgi þeirri meginniðurstöðu sem þar er ákveðin, þá breytir það ekki því að þingið sjálft og allir aðilar aðrir geti unnið að því máli ef hugur þeirra stendur til þess. Sjálfsagt verður tekið skref í þá áttina þegar fram líða tímar.

Varðandi rafræna stjórnsýslu, meðferð og geymslu upplýsinga þá er hárrétt hjá hv. þm. að þar er um mjög stórt mál að ræða sem eins og mál standa í dag liggur ekki nákvæmlega ljóst fyrir hvernig eigi með að fara. Þess vegna var það nefnt sérstaklega í tölu minni áðan að skipuð hefði verið nefnd til að fara sérstaklega yfir þann þátt og laga það sem snýr að Þjóðskjalasafni. Mjög mikið berst nú af gögnum inn til ráðuneyta. Sumt er kallað því óvirðulega nafni ruslpóstur og menn eru ekki að hlaða slíkum hlutum upp, en það er samt sem áður vandamál hver á að meta hvað er ruslpóstur, hvað er almennur kjaftagangur eins og stundum hefur tíðkast í þessum efnum. Símtöl hafa færst yfir í það að fara fram með þessum hætti. Ekki hafa menn hingað til staflað upp símtölum í Þjóðskjalasafni. Þetta er vandamál sem við þurfum að átta okkur á. Það gengur ekki að eitt ráðuneyti geri þetta með einum hætti og annað með öðrum. Við verðum því að hafa um það samræmdar reglur nákvæmlega eins og þingmaðurinn benti á, menn geta krafist þessara gagna en þá hefur þeim kannski verið eytt í tilteknum ráðuneytum en varðveitt í öðrum. Þess vegna er lagt til að nauðsynlegt sé í framhaldi af þessu að fara sérstaklega yfir þann þáttinn og hann er mjög mikilvægur.