Stjórnsýslulög

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 11:24:15 (1481)

2002-11-14 11:24:15# 128. lþ. 30.1 fundur 348. mál: #A stjórnsýslulög# (rafræn stjórnsýsla) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[11:24]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að í frv. er miðað við að um sé að ræða heimildir en ekki skyldur á þessu stigi máls. En eins og ég tók fram áðan getur maður ímyndað sér að þegar tímar líða fram verði stjórnvöld bundin þessu fyrirkomulagi með skyldu þannig að þau verði að gangast undir það að geta sinnt þessu ef aðrir óska þess, hvort sem þau kjósa eða kjósa ekki.

Á þessu stigi er aðeins hægt að hafa það heimild vegna þess að við erum ekki komin svo langt að við getum sagt: Nú verða allir að gera þetta, nú ber öllum að gera þetta. Þetta verður að fá að þróast.

Auðvitað lagði ég áherslu á frumkvæði ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, sem eðlilegt er af minni hálfu, en þó er þetta svo, maður getur viðurkennt það hér, að við erum eiginlega rekin í þetta því segja má að stjórnsýslan sé að byrja á þessu. Sum ráðuneytin eins og hv. þm. benti á eru lengra komin en önnur. Við erum eiginlega rekin í það að huga að því að gæta þess hvar munur er á formreglum eftir því hvort menn nota rafræna eða hefðbundna stjórnsýslu þannig að við erum kannski að elta þróunina frekar en að stýra henni, svo maður játi það nú bara eins og það er. Þetta hefur gerst svo ótrúlega hratt og það er mjög mismunandi held ég eftir því hvernig menn sinna þessu.

Það er líka mjög mismunandi hvað þeir sem að stjórnsýslunni koma utan frá eru færir um að nota þessa tækni. Ég er til að mynda persónulega ekkert mjög flinkur í því svo maður nefni dæmi. Þetta leikur í puttunum á öðrum, til að mynda yngstu kynslóðinni eins og við þekkjum. Þetta er þróun sem er að verða til og við erum að gæta okkar á að verða ekki á eftir og gæta okkar á því að ekki verði dregið úr formlegum kröfum þar sem þær eru réttmætar af öðrum ástæðum, ekki formsins vegna heldur krafnanna vegna. Það er mjög þýðingarmikið.

Varðandi hitt atriðið, þá geri ég ráð fyrir að þó að menn séu að huga að hinni almennu stjórnsýslu að þessu sinni, þá mun þetta auðvitað breiðast út þegar fram líða stundir.