Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 12:21:39 (1500)

2002-11-14 12:21:39# 128. lþ. 30.5 fundur 353. mál: #A almenn hegningarlög# (brot í opinberu starfi) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[12:21]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Frumvarpið er samið á vegum refsiréttarnefndar í framhaldi af tillögum sem fram koma í skýrslu nefndar forsrh. um starfsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslu að því er varðar refsiábyrgð starfsmanna stjórnsýslunnar.

Í frv. eru lagðar til breytingar á ákvæðum XIV. kafla almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi. Lúta þær m.a. að því að gera refsiheimildir skýrari hvað varðar opinbera starfsmenn. Auk þess eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum í ljósi breyttra tíma. Ekki er þó um verulegar efnisbreytingar að ræða.

Helsta nýmæli frv. er að bætt verði inn í lögin skilgreiningu á hugtakinu opinber starfsmaður, sbr. 6. gr. frv.

Eins og segir í grg. með frv. var það ein meginniðurstaða nefndar um starfsskilyrði stjórnvalda að afmarka þurfi nánar þetta hugtak. Í frv. er því lagt til að í lok XIV. kafla komi almenn skilgreining á hugtakinu opinber starfsmaður sem lögð verði til grundvallar við beitingu nánar tiltekinna ákvæða kaflans. Um er að ræða ákvæði sem ekki fjalla um ákveðna hópa opinberra starfsmanna, en í þeim tilvikum er almenn skilgreining á hugtakinu óþörf.

Ég vil undirstrika að fyrrnefnd skilgreining hefur það að markmiði að setja efnislega umgjörð utan um hugtakið opinber starfsmaður í refsiréttarlegri merkingu. Hugsunin sem býr að baki er að refsiákvæðið um starfsmenn hins opinbera taki aðeins til þeirra starfsmanna sem hafa á hendi valdheimildir til að hafa afskipti af daglegu lífi almennings eða ráðstafa opinberum hagsmunum.

Hvað varðar efnisatriði frv. að öðru leyti vísa ég til grg. með því. Ég vil þó nefna að breytingarnar eru flestar refsitæknilegs eðlis og miða að því að lagaákvæði XIV. kafla hegningarlaganna að breyttum tímum eða rýmka gildissvið þeirra í ljósi fenginnar reynslu.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.