Verðbréfaviðskipti

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 12:37:20 (1501)

2002-11-14 12:37:20# 128. lþ. 30.6 fundur 347. mál: #A verðbréfaviðskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[12:37]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um verðbréfaviðskipti, máli nr. 347 á þskj. 383.

Með frumvarpi þessu er gerð tillaga að heildarlöggjöf sem hefur að geyma hegðunarreglur og réttindi og skyldur í verðbréfaviðskiptum. Með frumvarpi til laga um fjármálafyrirtæki, sem er 215. mál á þskj. 218 og mælt hefur verið fyrir hér á hv. Alþingi, er lagt til að ákvæði um stofnun og starfsemi verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana í lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, verði hluti af heildarlögum um fjármálafyrirtæki. Þar af leiðandi er nauðsyn að laga gildandi ákvæði laga um verðbréfaviðskipti að frv. til laga um fjármálafyrirtæki.

Ég skipaði nefnd í júní 2001 sem falið var það verkefni að semja drög að frv. til verðbréfaviðskiptalaga sem tæki mið af frv. til laga um fjármálafyrirtæki. Ákvæði frumvarpsins byggja á þeim grunni sem lagður hefur verið í gildandi lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996, og lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998.

Lög um verðbréfaviðskipti hafa verið í gildi í sex ár en þeim hefur verið breytt tíu sinnum af ýmsum ástæðum. Með frumvarpi þessu eru innleidd ákvæði nokkurra tilskipana á sviði fjármálaþjónustu að hluta eða öllu leyti. Flest ákvæða þessara tilskipana hafa þó verið lögfest áður.

Helstu breytingar frá gildandi rétti eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er gerð tillaga að nýju yfirhugtaki ,,fjármálagerningi``, sem skiptist í verðbréf, afleiður, hlutdeildarskírteini, peningamarkaðsskjöl og framseljanleg veðréttindi í fasteignum og lausafé.

Í öðru lagi má nefna að gerð er tillaga um að ákvæði laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða sem hafa að geyma hegðunarreglur á verðbréfamarkaði verði hluti af lögum um verðbréfaviðskipti.

Í frv. eru því lagðar til breytingar á gildandi lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998, sem taka mið af þessu.

Í þriðja lagi eru ákvæði um réttindi og skyldur fjármálafyrirtækja sem hafa heimild til verðbréfaviðskipta gerð ítarlegri og fyllri miðað við gildandi löggjöf.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að ákvæði um almenn útboð verðbréfa eigi einungis við þegar um er að ræða sölu verðbréfa í sama verðbréfaflokki sem boðin eru almenningi til kaups með kynningu eða með öðrum hætti, enda séu verðbréf í sama flokki ekki skráð á skipulegum verðréfamarkaði. Þar af leiðandi eigi ákvæði um almennt útboð verðbréfa ekki við þegar um er að ræða sölu á verðbréfum í félögum sem þegar hafa verið skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Hins vegar er gert ráð fyrir að skylt verði að útbúa tilboðsyfirlit til sölu, a.m.k. 10% hlutar í skráðu hlutafélagi.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að flöggunarskylda verði virt við 5% atkvæðisréttar, eða nafnverðs hlutafjár, og margfeldi þar af, allt að 90%.

Í sjötta lagi eru nokkur ákvæði í gildandi reglugerðum, um yfirtökutilboð nr. 432/1999, og um upp lýsingaskyldu útgefenda, kauphallaraðila og eigenda verðbréfa sem skráð eru í kauphöll nr. 433/1999, tekin upp í frumvarpið.

Í sjöunda lagi er gerð tillaga að nýju ákvæði um viðskiptavaka.

Í áttunda lagi er ákvæði um markaðsmisnotkun breytt í ljósi tillagna að nýrri tilskipun Evrópusambandsins á þessu sviði.

Í níunda og síðasta lagi er nánar kveðið á um hvaða brot gegn ákvæðum laganna varða refsingu, og þá hvaða refsingu. Gerð er tillaga um að Fjármálaeftirlitið hafi í einstökum tilvikum heimild til að beita stjórnvaldssektum.

Hæstv. forseti. Ég mælist til að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.