Löggilding starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 12:48:01 (1504)

2002-11-14 12:48:01# 128. lþ. 30.9 fundur 354. mál: #A löggilding starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum# (tölvunarfræðingar o.fl.) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[12:48]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum.

Í lagafrv. þessu sem samið er í iðnrn. er gert ráð fyrir því að löggilt verði starfsheiti tölvunarfræðinga með því að bæta þeim við í upptalningu fyrrnefndra laga. Jafnframt eru gerðar smábreytingar varðandi starfsheiti húsgagna- og innanhússarkitekta.

Tölvunarfræði hefur lengi verið kennd við Háskóla Íslands og útskrifuðust fyrstu tölvunarfræðingarnir þaðan árið 1978. Síðan hafa yfir 500 nemendur lokið námi í greininni hér á landi. Námið tekur þrjú ár í háskólanum og er 90 einingar. Því lýkur með BS-gráðu í tölvunarfræði. Sams konar kennsla er í Háskólanum í Reykjavík, þ.e. námið tekur þrjú ár, er 90 einingar og lýkur með BS-gráðu í tölvunarfræði.

Í þeim skóla hefur einnig verið tveggja ára kennsla í kerfisfræði en með frv. þessu er ekki stefnt að löggildingu á heitinu kerfisfræðingur sem notað hefur verið af ýmsum aðilum auk þeirra sem útskrifast hafa í greininni í Háskólanum í Reykjavík. Jafnframt hafa ýmsir með litla eða enga menntun notað starfsheitið tölvunarfræðingur.

Taka má fram að tölvutæknar eru útskrifaðir eftir þriggja ára nám í Iðnskólanum í Reykjavík og starfsemi Rafiðnaðarskólans tengist tölvukerfum. Að öllu þessu námi er nánar vikið í lagafrv. en ég vil ítreka að með frv. er einungis stefnt að löggildingu starfsheitisins tölvunarfræðingur sem er þriggja ára háskólanám eins og ég hef áður getið um. Gert er ráð fyrir að þeir sem hafa lokið BS-prófi úr viðurkenndum íslenskum háskólum eða meistaraprófi úr slíkum skólum geti notað starfsheitið tölvunarfræðingur án þess að sækja um leyfi til ráðherra. Tekur þessi undanþága þannig til allra þeirra sem þegar hafa útskrifast í greininni úr háskólum hér á landi.

Að því er varðar húsgagna- og innanhússarkitekta sem er nú löggilt starfsheiti þykir rétt að leggja húsgagna- og innanhússhönnuði að jöfnu svipað og gert er í lögunum með landslagsarkitekta og landslagshönnuði. Hugsanlegt er að einhverjir sem báru starfsheitið húsgagna- og innanhússhönnuðir áður en starfsheitið húsgagna- og innanhússarkitekt var tekið upp vilji halda því heiti. Í frv. er gert ráð fyrir að réttur þeirra til slíks verði tryggður. Jafnframt þykir rétt að taka af tvímæli um það að þeir sem vilji nota starfsheitið húsgagnaarkitekt eða húsgagnahönnuður eitt og sér ellegar innanhússarkitekt eða innanhússhönnuður eitt og sér hafi fullnægjandi lágmarksmenntun á háskólastigi.

Ekki er gert ráð fyrir að frv. hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.