Textun íslensks sjónvarpsefnis

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 13:07:21 (1508)

2002-11-14 13:07:21# 128. lþ. 30.10 fundur 339. mál: #A textun íslensks sjónvarpsefnis# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[13:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður enda engin þörf á því. Ég hygg að um efni þessarar þáltill. sé fullt samkomulag. Ég leyfi mér að vona það. Þetta snýst fyrst og fremst um að stjórnvöld taki skyldur sínar í þessum efnum alvarlega og framfylgi vilja almennings um að þessu verði komið á, sem menn hafa lengi barist fyrir. Ýmsir hafa á umliðnum árum hreyft við þessum málum eins og þegar hefur komið fram í umræðunni.

Ég er þeirrar skoðunar að réttindabarátta heyrnarskertra og annarra sem þurfa á þessu að halda sé mjög mikilvæg og hluti af sókn okkar í átt að því að tryggja fólki full mannréttindi í þessu landi. Ég er og hef lengi verið þeirrar skoðunar að textun sjónvarpsefnis sem og löggilding táknmáls sem móðurmáls heyrnarskertra sé bæði jafnréttis- og mannréttindabarátta. Þó að ýmislegt hafi áunnist á síðustu árum þá hefur það kostað blóð, svita og tár, málaferli og harða baráttu þessara hópa. Það mættum við alveg hafa í huga að er ekki eins og það á að vera.

Við eigum að leggja metnað okkar í og sjá sóma okkar í að standa myndarlega að þessum hlutum. Það á í sjálfu sér ekki að vera einkamál þeirra sem búa við þessa fötlun eða við þessar aðstæður að sækja hvert einasta skref sér til hagsbóta með slíkri baráttu. Samfélagið ætti alltaf að taka skyldur sínar alvarlega í þessum efnum og standa myndarlega að verki.

Ég kem hér, herra forseti, eingöngu til að taka undir efni þessarar tillögu og þakka hv. flutningsmönnum fyrir að hreyfa við málinu.