Textun íslensks sjónvarpsefnis

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 13:09:33 (1509)

2002-11-14 13:09:33# 128. lþ. 30.10 fundur 339. mál: #A textun íslensks sjónvarpsefnis# þál., Flm. PBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[13:09]

Flm. (Pétur Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessar undirtektir. Ég tek reyndar sérstaklega undir orð hv. þm. varðandi táknmál sem tungumál heyrnarlausra. Áðan vitnaði ég í upplýsingar sem benda til að einn af hverjum sjö þurfi á textun að halda og það má ætla að mjög margir þeirra þurfi og á annars konar aðstoð að halda.

Hér á hinu háa Alþingi starfa 63 þingmenn auk starfsmanna og alla jafna, ég veit það þann tíma sem ég hef verið hér, hafa verið ýmsir hér sem hafa þurft á ýmiss konar heyrnarhjálp að halda. Það er fullkomlega eðlilegt að taka það upp hér, þó að það verði ekki gert hér og nú, að bæta aðgengi þingmanna að þingræðum. Sá sem hér talar getur vitnað um að mikið vantar á að auðvelt sé að ná öllum ræðum hér frá orði til orðs vegna þess að hér eru engin hjálpartæki við sæti þingmanna eða í borðum þeirra þrátt fyrir að allar lagnir og búnaður séu til þess. Þetta er eitt mál af mjög mörgum brýnum málum varðandi þetta efni sem þyrfti við tækifæri að fara að taka upp og heldur fyrr en síðar. Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en þetta vandamál verði fyrir hendi hér um ófyrirsjáanlegan tíma.