Sala Búnaðarbankans

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:07:04 (1513)

2002-11-18 15:07:04# 128. lþ. 31.1 fundur 242#B sala Búnaðarbankans# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er sjálfsagt erfitt stundum að fara nákvæmlega eftir skilgreiningu Orðabókar Menningarsjóðs. Til að mynda tel ég að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sé kjölfestan í Vinstri grænum þó að hann sé ekki botnstykki í skipi, ég held að það fari ekkert á milli mála.

En varðandi hins vegar S-hópinn og sölu á Búnaðarbankanum, þá verða engin hlutabréf afhent fyrr en greiðsla hefur átt sér stað og þar gildir nákvæmlega það sama og um Landsbankann. Ákveðin skilyrði eru einnig sett um að fyrir liggi þátttaka hins erlenda aðila, bankastofnunar, áður en frá þessu er gengið. Þetta er allt saman í góðu samræmi við þær reglur sem unnið hefur verið eftir. Ég sé ekki annað en það liggi fyrir að þegar aðili hefur forustu um kaup á 45% hluta af 100 í stofnun eins og Búnaðarbankanum, þá sé það eftir öllum almennum skilgreiningum örugglega kjölfestuaðili.