Velferðarkerfið

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:13:45 (1519)

2002-11-18 15:13:45# 128. lþ. 31.1 fundur 243#B velferðarkerfið# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að 25. september sl. var stofnað til vinnu með Landssambandi eldri borgara, vinnu sem átti að miða að því að leggja mætti fyrir þingið tillögur er snertu lífeyrisþátt, bótaþátt og jafnframt umönnunarþátt hins almenna kerfis. Skýringin sem gefin var af hálfu ríkisstjórnarinnar við þau tímamót var sú að forráðamenn eldri borgara hefðu að því fundið að þrátt fyrir aukið samstarf gerðist það of oft að þeir væru látnir koma að málum á síðari stigum og stæðu of oft frammi fyrir allt að því gerðum hlut. Leitast var við að fara öðruvísi að í þetta sinn og það hefur mikið verið unnið og fundir verið margir og ég vænti þess eða a.m.k. vonast til þess að samstaða náist milli manna þannig að hægt verði að leggja fram tillögu til þingsins við 2. umr. fjárlaga eða þá í síðasta lagi við 3. umr. en vonandi við 2. umr. sem færi miklu betur á. En auðvitað fer það eftir því hvort menn ná saman. Það lá aldrei fyrir fyrir fram. Það átti að reyna það og það er mikið í húfi fyrir alla aðila að það takist. Ég vona það besta og tek að því leyti til undir með hv. fyrirspyrjanda.