Framkvæmd laga um þjóðlendur

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:21:53 (1525)

2002-11-18 15:21:53# 128. lþ. 31.1 fundur 244#B framkvæmd laga um þjóðlendur# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin og skil og virði hans stöðu sem fulltrúa framkvæmdarvalds er gegnir því hlutverki að hrinda í framkvæmd vilja þingsins í erfiðu máli. En við hljótum að spyrja hvort ekki sé einfaldast að viðurkenna þinglýsingar, t.d. frá árinu 1882 og yngri, í því skyni að upphefja allan vafa. Landeigendur hafa borgað skatta og skyldur af þessum þinglýstu eignum. Stjórnsýslan hefur viðurkennt þær í verki með þinglýsingunni sjálfri og samkvæmt henni ætti að vera nokkuð skýrt hvað telst þinglýst eign og hvað ekki.

Það er auðvitað hin versta staða að bæði ríkisvald og landeigendur þurfi að standa í hörðu stríði og verulegum fjárútlátum vegna deilna sem e.t.v. eru óþarfar og ég tala nú ekki um ef núverandi staða beinlínis skaðar landeigendur vegna réttaróvissu. Ég spyr því hvort ekki sé einfaldast að leyfa landeigendum að njóta vafans með skírskotun til umræðna á Alþingi, niðurstaðna úrskurðarnefndar og þinglýstra eigna og skerpa þá betur á þessu ákvæði í lagatexta en láta jafnframt úrskurðinn duga sem lokaniðurstöðu.