Heimild til kaupa á Geysissvæðinu

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:29:46 (1533)

2002-11-18 15:29:46# 128. lþ. 31.1 fundur 246#B heimild til kaupa á Geysissvæðinu# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:29]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Lengi hefur verið heimild í 7. gr. fjárlaga til kaupa ríkisins á hverasvæðinu við Geysi í Haukadal í Biskupstungum. Enn er þessi heimild í frv. til fjárlaga fyrir árið 2003 undir greininni 6.3 á bls. 45. Ég geri mér grein fyrir að hér er um nokkuð flókið samningaferli að ræða og hefur tekið langan tíma og það verður í raun flóknara með hverju árinu sem líður, þ.e. samningaferlið verður erfiðara og flóknara eftir því sem fleiri koma að því, þ.e. afkomendur upphaflegra eigenda þessa svæðis.

Geysissvæðið er einstakt svæði á Íslandi og á skilyrðislaust að vera í eigu ríkisins vegna sérstöðu þess varðandi hverina sem þar eru, vegna umhverfisþátta, vegna ferðaþjónustu og vegna verndunar og viðhalds þessa svæðis. Því spyr ég hæstv. fjmrh.: Hvernig standa þessar samningaviðræður nú og hvenær hyggst ráðherra ljúka þessu máli?