Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 16:17:58 (1546)

2002-11-18 16:17:58# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[16:17]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér saman þau þrjú mál sem þrír hæstv. ráðherrar hafa mælt fyrir í dag, þ.e. frv. til laga um Vísinda- og tækniráð, frv. til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir og frv. til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.

Virðulegi forseti. Hér við 1. umr. vil ég segja í upphafi máls míns að ég held að það hafi komið á daginn við framlagningu þessara frv. að það hafi verið til góðs að þessi mál voru ekki afgreidd á þinginu í fyrra. Mér sýnist á öllu að þær breytingar sem hafa verið gerðar hafi einungis verið til góðs, og ber að fagna því alveg sérstaklega.

Við þessa 1. umr. málsins er nauðsynlegt að reyna að átta sig á helstu breytingum sem fólgnar eru í þeim frv. og hugmyndum sem hér eru lagðar fram. Helstu breytingarnar felast í því að reynt er að koma einhverri heildarstefnumótun yfir vísinda- og tæknisamfélagið. Hæstv. ráðherrum er fyrst og fremst ætlað að stjórna þeirri stefnumótun.

Það skipulag sem við höfum lifað við um nokkuð langt skeið hefur fyrst og fremst falist í því að margir hafa komið að því. Menn hafa gagnrýnt núverandi skipulag fyrst og fremst á þeirri forsendu að erfitt sé að átta sig á því hvað er að gerast, það sé engin heildaryfirsýn yfir það sem verið er að veita styrki í. En hér á að reyna að setja upp einhvers konar kerfi þar sem heildarstefnumótun ræður för.

Báðar þessar leiðir hafa kosti og galla að mínu viti. Gallinn við þá leið sem hér er ætlunin að fara hlýtur að vera fyrst og fremst sá að með svona heildarstefnumótun setja menn flest, ef ekki öll, eggin í sömu körfuna. Og þegar um er að ræða þróun, vísindi og rannsóknir er vitaskuld verið að veðja á framtíðina, þ.e. hvað rannsóknir, vísindi og þróun kunna að leiða af sér. Því er alveg augljóst að áhættan hlýtur að vera meiri með því að setja öll eggin í sömu körfuna. Það er líka ljóst af lestri greinargerðar með þessum frv. að markmiðið með þeim er fyrst og fremst að efla hagvöxt í þekkingarsamfélagi. Það markmið er vissulega gott en áhættan hlýtur að vera meiri þegar þetta er allt saman sett í sömu körfuna eins og hér er ætlunin að gera.

Þá skiptir ekki síður máli, virðulegi forseti, að þessum skipulagsbreytingum fylgi líka aukið fjármagn. Það má alveg ljóst vera að ef ekki kemur til aukið fjármagn skiptir litlu hvert skipulagið er á framlögum til rannsókna og vísinda. Ef ná á þessum markmiðum þarf því að tryggja að fjárframlög verði aukin verulega. Með því að rýna í þau gögn sem liggja fyrir virðist ljóst vera að aukning á framlögum til þessara þátta hafi verið mjög lítil undanfarin ár, ef nokkur. Á þessu þarf að gera verulega bragarbót.

Kjarninn í málinu er samt sem áður sá að verið er að stjórnmálavæða heildarstefnumótun að því er varðar fjárframlög til vísinda og rannsókna. Það er kjarninn í þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir og sú hugmynd hlýtur að verða tekin hvað mest fyrir í umræðum um þessi mál.

Hættan við það að fela stjórnmálamönnum svona mikið vald á þessu sviði hlýtur einnig að vera sú að vísindamenn muni ekki í jafnríkum mæli setja fram hugmyndir og rannsóknir eða kynna niðurstöður sem eru stjórnmálamönnum ekki að skapi. Það hlýtur að skipta miklu máli við mat á því hvort vísindamenn geti fengið framlög að þeir kynni ekki niðurstöður sem stjórnmálamönnum eru á móti skapi. Að því leytinu felst í þessari stefnumótun talsverð hætta. Hún getur líka verið sú að við hættum að stunda vísindi og rannsóknir þar sem markmiðið er þekkingin þekkingarinnar vegna og þá möguleikinn á óvæntum niðurstöðum. Þetta finnst mér skipta miklu mál. Þetta er kannski gallinn við þá leið sem hér eru lögð drög að, að stjórnmálavæða, ef svo má að orði komast, vísinda- og rannsóknarsamfélagið í því formi að stjórnmálamenn og ráðherrar hafi mikið um heildarstefnumótunina að segja. Þetta skiptir miklu máli. Þetta mikla pólitíska vald á þessu sviði getur haft alvarlegar afleiðingar, einkanlega ef heildarstefnumótunin gengur ekki upp, þ.e. veðmálið á framtíðina, því auðvitað geta menn ekki annað en reynt að fá eins mikið og hægt er út úr vísindum og rannsóknum og þróunum til að efla hagvöxt í þekkingarsamfélagi. Þetta hlýtur að vera helsta gagnrýnin sem menn setja fram á þá leið sem hér er ætlunin að fara.

Þá held ég líka að við verðum að hafa í huga þegar verið er að bera okkur saman við Finnland að Finnar hafa lagt hlutfallslega miklu meira fjármagn til vísinda og rannsókna en nokkurn tíma hefur verið gert hér. Það er kannski fyrst og fremst ástæðan fyrir árangrinum sem þar hefur náðst, ekki endilega stjórnskipulagið sem slíkt heldur fyrst og fremst fjármagnið og þær áherslur sem menn hafa lagt á vísindi og rannsóknir í Finnlandi. Þess vegna er mjög varhugavert að bera þetta saman nema ætlunin sé að auka framlög til vísinda og rannsókna mikið frá því sem nú er.

Virðulegi forseti. Þetta mál mun koma til allshn. og þar sem ég sit í henni mun ég fá aukið tækifæri til að fjalla um þau frv. sem hér er um að ræða. Við fyrstu sýn, virðulegi forseti, vil ég segja að ég held að það sé ástæða til að taka við þessu með jákvæðu hugarfari. Það breytir ekki því að ýmsar hættur leynast í stefnumótuninni. Og ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að það ætla ég að vona að þegar til þess kemur að móta þessa stefnu muni aðrir aðilar sitja í ráðherrastólunum en nú. Það held ég að sé algjört lykilatriði ef hugmyndin á að geta gengið upp.