Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 16:33:19 (1551)

2002-11-18 16:33:19# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[16:33]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hef verið hér til staðar og hlýtt á hvert einasta orð sem sagt hefur verið um þau mikilvægu frv. sem liggja nú fyrir þinginu.

Ég tel að það skipti mjög miklu máli hvernig við afgreiðum frá okkur ný lög um stuðning við vísindi og rannsóknir á Íslandi.

Ég vil byrja á að lýsa yfir stuðningi við það meginmarkmið sem talsmenn þessara frv. kappkosta að lýsa yfir, að til standi að styrkja rannsóknir á Íslandi. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum flutt mörg þingmál í þá veru og höfum mikinn skilning á mikilvægi þessa málefnis. Ég vísa t.d. í till. til þál. um stuðning við atvinnurekstur í smáum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem við tökum sérstaklega fram mikilvægi margvíslegra rannsókna og nýsköpunar. Með öðrum orðum, við erum hlynnt stuðningi við hagnýtar rannsóknir í atvinnulífinu en einnig innan vébanda vísindastofnana.

Ríkisstjórnin talar einnig í málatilbúnaði sínum mikið um einmitt þetta og í athugasemdum við lagafrv. sem hæstv. forsrh. talaði fyrir áðan segir, með leyfi forseta:

,,Fjárfesting í menntun, vísindarannsóknum og tækniþróun skilar þannig sýnilegum árangri, m.a. umtalsverðum og vaxandi tekjum í útflutningi á hátæknivörum og þjónustu sem byggð er á háþróaðri þekkingu og rannsóknum.``

Reyndar er þetta sett inn í samhengi sem ég tel ekki alls kostar rétt að gera, því þetta er að sjálfsögðu tengt nýfrjálshyggjunni og markaðsvæðingunni sem riðið hefur húsum hér á síðustu árum. Því einnig segir hér, með leyfi forseta:

,,Á undanförnum áratug hafa blásið nýir vindar í íslensku atvinnulífi. Miklar skipulagbreytingar hafa orðið við aukið frelsi á fjármálamarkaði og einkavæðingu ríkisfyrirtækja.``

Og síðan heldur þessi gamalkunni söngur áfram.

Staðreyndin er náttúrlega sú að framfarir hófust síður en svo með tilkomu þeirra Margrétar Thatcher á valdastóli í Bretlandi, eða Ronalds Regans í Bandaríkjunum. Tuttugasta öldin var mikið framfaraskeið, geysilegt framfaraskeið, á nánast öllum sviðum vísinda og rannsókna skilaði hún okkur miklum ávinningi. Hver var ramminn um þessar rannsóknir? Það var samfélagið. Þetta var samfélagslegt átak að uppistöðu til. Framfarir á sviði tækni, framfarir á sviði læknavísinda, svo dæmi sé tekið. Það sem hefur komið fram hjá vísindamönnum og vísindastofnunum víðs vegar um heiminn er að þeir óttast að með aukinni markaðsvæðingu og einkavæðingu verði smám saman grafið undan grunnrannsóknum sem síðan muni draga úr framförum þegar til lengri tíma er litið. Allt þetta á að sjálfsögðu eftir að koma í ljós.

Ríkisstjórnin segir og talsmenn hennar hafa sagt við umræðuna að í sjálfu sér sé þetta mjög einfalt mál. Ég held það hafi verið orð hæstv. forsrh. Hann sagði að þetta væri mjög einfalt mál, og hann sagði í því sambandi að hið einfalda í þessu væri að verið væri að færa vísindarannsóknir á markvissan hátt undir pólitískt vald. Í athugasemdum með frv. sem hann talaði fyrir segir, með leyfi forseta:

,,Vægi málaflokksins er aukið með því að stefnumótun fer fram í ráði sem fjórir ráðherrar eiga sæti í og starfar undir stjórn forsætisráðherra. Þar koma ráðherrar, vísindamenn og fulltrúar atvinnulífs saman til stefnumótunar í málefnum rannsókna og þróunar. Er þetta nýlunda á Íslandi. Oft hefur verið bent á að það hafi staðið málaflokknum fyrir þrifum að heyra undir mörg ráðuneyti. Það hafi byrgt heildarsýn og hindrað markvissar aðgerðir. Víst er að í þeim löndum sem mesta athygli hafa vakið fyrir stefnumótun í vísindum og tækni hafa oddvitar ríkisstjórna komið að málum og staðið fyrir aðgerðum.``

Sannast sagna held ég að þetta sjónarmið hafi fengið góðan hljómgrunn víðs vegar í þjóðfélaginu og í vísindasamfélaginu þar sem menn telji að þetta kunni að vera ávísun á meira fjármagn til rannsókna. Ég hef um það ákveðnar efasemdir. Ekki þarf annað en að slá upp í umsögnum um frumvörpin. Í umsögn frá fjmrn. segir um þetta tiltekna frv., með leyfi forseta:

,,Af þessum sökum er gengið út frá því að lögfesting frumvarpsins leiði ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Útgjöldin gætu þó skipst öðruvísi en áður.``

Í frv. um opinberan stuðning við vísindarannsóknir segir í umsögn fjmrn., með leyfi forseta:

,,Þegar allt er talið telur fjármálaráðuneytið að frumvarpið muni leiða til lægri stjórnsýslukostnaðar verði það að lögum þótt ekki liggi fyrir nægar upplýsingar til að meta fjárhæðir í því sambandi. Þá mun frumvarpið leiða til 28,5 millj. kr. árlegs sparnaðar eftir að stöður rannsóknarprófessora hafa verði lagðar niður. Á móti koma allt að 7 millj. kr. tímabundin útgjöld vegna biðlauna.``

Þetta er nú tónninn. Hér er ekki verið að tala fyrir auknu framlagi til rannsókna og vísinda á Íslandi því verið er að tala um sparnað, um leiðir til niðurskurðar. Þetta er tónninn. Þetta eru skilaboðin sem fylgja frá ríkisstjórninni úr Stjórnarráðinu til íslenskra rannsóknamanna.

Við skulum líka hyggja að því hvað býr að baki þeim tölum sem hér eru reiddar fram. Í grg. með frv. kemur fram, og menn tala þar af nokkru stærilæti um að að raunvirði hafi framlag til rannsókna á Íslandi aukist talsvert meira en gert hafi annars staðar á Norðurlöndum, eða um 12,6% held ég frá árinu 1999, og það sé meira en gerist annars staðar.

En hvernig er skipting þessa fjár? Er það svo að samfélagið leggi meira af mörkum til vísindarannsókna en áður var? Er það ekki svo að hér sé allt talið til, það sem gerist innan veggja fyrirtækja og innan vísindarannsókna sem reknar eru á ábyrgð samfélagsins, Háskóla Íslands svo dæmi sé tekið, til rannsóknastofnana sem sinna margvíslegum vísindastörfum? Gæti verið að þriðjungurinn af þessari upphæð komi frá Íslenskri erfðagreiningu, rannsóknum sem unnar eru á vegum þess fyrirtækis? Hvað með fullyrðingar sem fram hafa komið hjá vísindasagnfræðingum á borð við Steindór Erlingsson, svo dæmi sé tekið og það ekki slæmt dæmi því hann hefur farið mjög vel í saumana á þessum málum? Hann segir að ákveðinna áherslubreytinga gæti í ráðstöfun fjármuna til rannsókna á síðustu árum. Ég spyr: Er það í þágu grunnrannsókna eða annarra rannsókna?

Það þýðir ekki að koma og slá fram einhverjum óljósum yfirlýsingum eins og hér hefur verið gert. Það er að gerast alls staðar í heiminum að fyrirtæki eru að láta sífellt meira í rannsóknir og nýsköpun en áður var. Þar erum við að færa okkur inn í farveg sem hefur verið mótaður víða erlendis og við vorum eftirbátar annarra í. Þetta er að breytast sem betur fer. Fyrirtæki á borð við Össur og Íslenska erfðagreiningu sinna slíkum rannsóknum. Og fleiri fyrirtæki mætti nefna. Þetta er að hífa framlagið upp. En hvernig er komið fram gagnvart öðrum rannsóknastofnunum? Gagnvart Háskóla Íslands t.d. og gagnvart ýmsum rannsóknastofnunum þar sem rannsóknir eru stundaðar? Hvernig hefur verið búið að Rannís? Ég hefði ekki talið að menn væru of sælir af framlaginu þar á bæ á undanförnum árum. Á að veita meira fjármagn í rannsóknir á vegum íslenskra vísindastofnana? Stendur til að gera það? Fróðlegt væri að heyra útleggingar hæstv. menntmrh. um það efni.

En varðandi þær yfirlýsingar sem ég vitnaði til áðan og mér finnst sannast sagna nokkuð yfirlætisfullar, svolítið drýgindalegar um að nú sé slíkum rannsóknum loksins borgið, vegna þess að þær eru komnar í svo náin tengsl við hæstv. iðnrh. Valgerði Sverrisdóttur eða hæstv. menntmrh. Tómas Inga Olrich, og hæstv. forsrh. sem getur meira að segja skipað tvo aðra ráðherra í þessa vísindaakademíu, að nú sé allt komið í lag, allir séu hólpnir, menn séu komnir í náðarfaðm þeirra. Hafa menn engar efasemdir um að binda vísindasamfélagið svo nánum böndum við hið pólitíska vald? Hafa menn engar efasemdir um það? Gætu þetta reynst vinarklær þegar allt kemur til alls? Gæti það verið? Er þessi tenging við fulltrúa atvinnulífsins endilega svo jákvæð? Þyrfti hún þá ekki að vera breiðari? Hér er talað um að Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins skipi fulltrúa. Það eru einu fulltrúar atvinnulífsins sem koma til með að skipa fulltrúa í Vísinda- og tækniráðið, ekki fulltrúar annarra samtaka. Ég minnist þess að þegar fulltrúar þeirra samtaka komu á fund allshn. síðasta vor þá var talað um mikilvægi þess að láta meira af hendi rakna til álrannsókna. Rætt var um það.

Ég spyr: Er ekki ráð að efla sjálfstæði akademískra stofnana, rannsóknastofnana á borð við Háskóla Íslands, Rannsóknarráðs og aðra sem hafa vélað með þessa fjármuni í stað þess að tengja úthlutun fjárins pólitískum aðilum eins og gert er ráð fyrir í frv.? Ég held það.

[16:45]

Nú mætti ætla að það væri ég sem talaði fyrir miðstýringu en hæstv. ráðherra Tómas Ingi Olrich hefði um það efasemdir. Það er ég sem er hins vegar að tala fyrir valddreifingu, er að tala fyrir sjálfstæði stofnana, rannsóknastofnana og vísindamanna. Ég held að okkur sé betur borgið með þeim hætti.

En Finnar hafa farið þessa leið, segja menn. Það kann vel að vera. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar áttum þess ekki kost að fara til Finnlands í sumar. Þar var einvörðungu boðið stjórnarsinnum, formönnum þeirra nefnda sem í hlut eiga. Fulltrúum annarra eða stjórnmálaflokka sem eru í stjórnarandstöðu var ekki boðið. Þeim var boðið jú, en þeir gátu þá borgað undir sig þannig að þeir fóru ekki. Þeir þurfa að fá plöggin frá formönnum þessara nefnda og frá ráðuneytinu. En hvers vegna var ekki farið til annarra landa líka? Hvers vegna var einvörðungu farið til Finnlands?

Nú er það svo að áherslur Finna eru um margt ólíkar því sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Ég þekki þetta af öðrum vettvangi. Hvað snertir t.d. vinnueftirlit og heilbrigðiseftirlit á vinnustöðum hafa Finnar farið aðrar leiðir en hinar Norðurlandaþjóðirnar, tekið upp markaðsvæðingu innan heilbrigðiskerfisins í ríkari mæli en aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert. Gæti það verið einnig á þessu sviði? Gæti það verið? Hvers vegna er ekki könnuð staðan í öðrum ríkjum einnig á hinum Norðurlöndunum? Mér þætti vænt um að hæstv. fjmrh. upplýsti okkur ögn nánar um þetta.

Herra forseti. Lagabókstafur er náttúrlega eitt. Síðan er hitt hvernig lögin eru notuð og hvernig lagabókstafurinn og túlkun hans, útlegging, þróast. Verði þessi frv. að lögum þá skiptir sköpum hvernig á þessum málum er haldið, að sjálfsögðu. Auðvitað viljum við leggja okkar af mörkum til þess að beina þessari þróun í farsælan og uppbyggilegan farveg.

En ég hef hins vegar mjög miklar efasemdir um að rétt sé að fara þá leið í öllum grundvallaratriðum að samtvinna hið pólitíska vald rannsókna- og vísindastarfinu. Ég hef mjög miklar efasemdir um að það sé rétt. Og eftir því sem ég hef komist næst þá er það sem að er í vísindarannsóknum á Íslandi ekki skipulagið heldur fjármunirnir eða öllu heldur skortur á fjármunum. Það er það sem hefur staðið íslenskum vísindarannsóknum fyrir þrifum, þ.e. skortur á fjármagni. Þar hefðum við að sjálfsögðu þurft að vera miklu meira stórhuga en við höfum verið. Það eru mér mjög mikil vonbrigði að þessum skipulagsbreytingum sem hér eru boðaðar skuli ekki fylgja fyrirheit um stóraukið fjármagn. Þvert á móti þá er talað um niðurskurð. Það er ekkert annað að finna hér í þessum frv. en hótanir um niðurskurð.

Eins og hér hefur komið fram þá verður þessum frv. vísað til nefnda. Ég hef orðið var við það frá vísindamönnum og ýmsum sem eru á tengdum vettvangi að þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvörpunum frá því í vor séu vissulega til bóta. Ég tel hins vegar að sjálfur grunnurinn sé ekki réttur. En allt þetta mun ég að sjálfsögðu setjast yfir þegar þessi frv. koma til umfjöllunar í þeim nefndum sem ég á sæti í.