Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 16:52:39 (1553)

2002-11-18 16:52:39# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[16:52]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur ef menn skilja mig á þann hátt að ég vilji ekki að rannsóknir séu tengdar atvinnulífinu. Þvert á móti þá talaði ég um mikilvægi rannsókna fyrir atvinnulífið. Spurningin er hins vegar þessi: Á hvern hátt tengjast rannsóknir atvinnulífinu?

Það geta skapast ákveðnir íhaldsstrengir ef við tengjum rannsóknir og nýsköpunarvinnu því sem er. Eðli nýsköpunar er að búa til eitthvað nýtt og til þess að styrkja rannsóknastofnanir í þeirri viðleitni þá þarf að gefa þeim frelsi, þá þarf að gefa þeim lausan tauminn að verulegu marki.

Ég tek eftir orðalaginu sem hæstv. ráðherra notar þegar talað er fyrir því að tengja rannsóknastarfsemi og vísindastarfsemi ríkisstjórn Íslands, þ.e. að verið sé að lyfta henni upp á æðra plan, að verið sé að lyfta rannsókna- og vísindastarfi upp á æðra plan með því að tengja það þessum bekkjum hér. Með fullri virðingu fyrir þeim sem verma þessi sæti þá er ég nú ekki sammála því að þetta sé rétt orðalag. Ég vil ekki nota orðalagið lægra plan, síður en svo, alls ekki. En það er verið að setja í farveg sem ég tel vera afskaplega vafasaman og ég hef fært fyrir því rök í máli mínu.