Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 16:58:04 (1556)

2002-11-18 16:58:04# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[16:58]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að leiðrétta misskilning sem fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, þ.e. að hér væri verið að boða niðurskurð í framlögum til rannsókna. Þessi frv. fjalla ekki um fjárframlög til rannsókna. Þau fjalla um skipulag. Allar athugasemdir sem hér er að finna um sparnað má í raun rekja til þess að verið er að reikna út hvað frumvörpin í sjálfu sér fela í sér, einungis þau. Þar af leiðandi er augljóst að ekki er verið að fjalla um heildarframlög til rannsókna. Það vekur mér nokkra undrun að menn skuli álíta það.

Hér var spurt hvort frumvarpið fæli í sér miðstýringu eða valddreifingu. Í þessu frv. er ekki heldur verið að vega gegn sjálfstæði vísindastofnana, þvert á móti. Það sem hefur verið að gerast í þessum efnum á sl. tíu árum er að háskólum hefur fjölgað. Þeir hafa verið styrktir. Þeir hafa m.a. fengið aukið rannsóknafé og eru farnir að taka ríkari þátt í rannsóknastarfi. Það hefur styrkt íslenskt vísindasamfélag í heildina.

Það sem hér er verið að tala um er að samhæfa betur það starf sem unnið er innan ríkisstjórnarinnar í vísinda- og tæknimálum og gera stefnumörkunina markvissari.

Að sjálfsögðu er það mjög glögg vísbending um það hvernig unnið hefur verið í þjóðfélaginu á undanförnum árum að fyrirtækin eru orðin miklu viljugri til þess að fjárfesta í rannsóknum og í þekkingu en áður var. Það ber að túlka --- og það er erfitt að túlka það öðruvísi --- sem viðurkenningu á því að stjórnvöld hér hafa hagað málum þannig að orðið er hagstæðara fyrir fyrirtækin að fjárfesta í rannsóknum en áður var. Bæði er það vegna þess að skattar hafa verið lækkaðir á fyrirtækin, umhverfi fyrirtækjanna er hagstæðara, og þar af leiðandi skilar það sé betur til fyrirtækjanna að fjárfesta í rannsóknum og vísindum og það hafa þau gert.

Þess vegna ber að fagna því að hlutfall fyrirtækjanna hefur hækkað mikið. En jafnframt ber að viðurkenna það að Íslendingar eru með hæstu ríkisframlög til vísinda á Norðurlöndum.