Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 17:02:53 (1558)

2002-11-18 17:02:53# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[17:02]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Mikilvægt er að það komi fram að fjármagn til rannsókna- og vísindastarfsemi hefur verið að aukast mikið á undanförnum árum og eins og fram kom í ræðu forsrh. þá er verið að leggja grundvöll að því að efla enn vísindastarfsemi í landinu. Þess vegna fer ekkert milli mála til hvers þessi breyting er gerð. Hún er gerð til þess að efla rannsókna- og vísindastarf í landinu og efla tengslin á milli atvinnulífsins, stjórnmálanna og vísindaheimsins, en það eru einmitt þessi tengsl sem er mikilvægt að efla og til þess bendir einmitt fordæmið frá Finnlandi, að það er hagkvæmt. Það er hagkvæmt að efla þessi tengsl og það kemur ekki niður á grunnrannsóknum.

Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því að það er leitað fanga hjá Finnum vegna þess að við mjög erfiðar aðstæður, þegar meginmarkaður þeirra hrundi, fóru þeir þá leið og héldu ótrauðir áfram á henni, að fjárfesta í vísindum og rannsóknum. Þeir breyttu skipulagi sínu og það hefur sýnt sig að finnska dæmið hefur eflt finnskt atvinnulíf og finnsk vísindi mjög verulega. Þess vegna finnst mér menn verða að gera sér grein fyrir því að hér með er verið að leggja grundvöll þess að efla vísindastarfsemi í landinu verulega.