Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 17:06:53 (1560)

2002-11-18 17:06:53# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[17:06]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Frv. þau sem hér eru til umræðu voru tekin fyrir á Alþingi síðasta vor undir þinglok og um þau fór fram gífurlega mikil umræða í nefndum þingsins, iðnn., allshn. og menntmn. Haldnir voru langir og strangir sameiginlegir fundir þessara þriggja nefnda, gífurlegur fjöldi gesta var kallaður til og allt benti í þá átt að það ætti að koma þessum frv. í gegnum þingið með miklu hraði sl. vor. Til allrar guðs lukku var því slysi afstýrt. Hverjir sem þar hafa komið að málum eða átt þátt í því að þessum þrýstingi var aflétt eiga þakkir skildar úr þessum stóli því það er alveg ljóst að sá tími sem gefinn var til frekari vinnu í þessum frv. núna í sumar er auðvitað að skila sér. Menn hafa fengið tækifæri og tíma til þess að ná betur utan um þessi mál. Nú þegar eru komnar ákveðnar breytingar inn í þessi frv. sem mér sýnist í fljótu bragði vera til bóta. Mér sýnist í öllu falli algerlega ljóst að umræðugrundvöllur okkar alþingismanna sé miklum mun skýrari núna. Við höfum miklu fastara land undir fótum en við höfðum í vor. Ég vil að það sé alveg ljóst að ég fagna mjög þeirri ákvörðun sem tekin var hér undir vor að þessi aukni tími var gefinn í málinu.

Spurning sem ég þrástagaðist á í fyrravor er enn ofarlega í mínum huga. Hún spratt af umræðu um þessi mál, umræðu sem þeir aðilar sem þekkja mjög vel til málaflokksins tóku þátt í í nefndum Alþingis og sú spurning er í grunninn þessi: Hvað er það í því fyrirkomulagi sem við búum við í dag sem kemur í veg fyrir að við getum náð því markmiði í vísinda- og rannsóknastarfi sem lýst er í 1. gr. frv. um opinberan stuðning við vísindarannsóknir? Markmiðssetningin í 1. gr. er afar skýr. Markmiðið er sagt vera, með leyfi forseta:

,,... að efla vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi með því að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem starfa að vísindarannsóknum jafnframt því að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir hér á landi.``

Þessari spurningu sem ég beindi til þeirra sem heimsóttu nefndirnar í vor var svarað má segja á einn veg. Menn sögðu: ,,Kerfið sem við búum við í dag er kannski ekkert alslæmt ef við hefðum svona eins og 200 millj. meira í því en í dag.`` Það stóð nánast upp úr hverjum einasta manni að þörfin fyrir meira fjármagn væri meginatriðið í þessu máli. Jafnvel þó svo að engu yrði breytt í hinni tæknilegu umgjörð en settar yrðu 200 millj. í viðbót á ári í þennan málaflokk þá gætu menn unað sáttir við.

Hafliði P. Gíslason, formaður Rannsóknarráðs Íslands, sagði meira að segja fullum fetum við nefndirnar í fyrra að sjóðirnir hafi beinlínis verið sveltir undangengin ár og að skortur á fjármunum hafi fyrst síðast staðið starfi þessara sjóðstjórna fyrir þrifum. Hæstv. menntmrh. má því ekki gera lítið úr umræðunni sem kemur hér upp strax við 1. umr. þessa máls um að spurningin sé fyrst og síðast um fjármagn en ekki kerfi. Það er eðlilegt að menn beri þá umræðu hér á borð aftur því svo rammt kvað að því í umræðu nefndanna undir vor að menn segðu að þetta væri fyrst og síðast spurning um fjármagn. Því er alveg eðlilegt að sú umræða endurtaki sig nú.

Herra forseti. Það er mikilvægt að við fáum heildarsýn yfir þennan málaflokk og markviss stefnumótun þarf auðvitað að eiga sér stað. Þó að ég hafi ekki fengið tækifæri til að fara til Finnlands langar mig að vitna í það sem ég þó hef aflað mér af fróðleik og þekkingu á aðstæðum Finna, en Finnar tóku, nákvæmlega eins og hæstv. ráðherrar leggja til, stefnumótun stjórnvalda virkilega til bæna þegar þeir hófu vinnu við það átak sem þeir gerðu til eflingar vísindarannsóknum heima hjá sér.

Meðal þess sem Finnar gerðu var að stofna framtíðarnefnd við finnska þingið. Það var ekki framtíðarnefnd í þeim skilningi að hún hafi átt að vera einhver véfrétt sem hafi átt að spá fyrir um framtíðina. Ónei, það var nefnd sem fékk það hlutverk að hanna framtíðina. Nefndin var beinlínis sett niður til þess að búa til sýn til framtíðar. Þessi nefnd hefur starfað í ein tíu eða fimmtán ár. Ég þori ekki alveg að fara með tímann. Framtíðarnefndin við finnska þingið er stefnumótunarnefnd og hún vinnur ekki við neitt annað en að móta og hanna framtíðina. Það er síðan á grunni stefnumótunarinnar sem kemur frá framtíðarnefndinni sem Finnar sjá að þeir mundu græða á því, hvernig sem á það mál er litið, mundu hagnast á því að efla vísindarannsóknir.

Eitt af því fyrsta sem Finnar síðan gerðu var að auka fjárstreymi til vísindarannsókna til mikilla muna. Það er alveg sama hvað hæstv. menntmrh. segir um að við stöndum okkur vel í þessum efnum, við í okkar litla hagkerfi og litla og kröfuharða samfélagi erum samt ekki hálfdrættingar á við Finna og prósentutölur um hlutfall af þjóðarframleiðslu eða upphæðir greiðslna miðað við höfðatölu eru auðvitað ekki tölur sem spegla raunveruleikann. Finnar tóku sem sagt ákvörðun um að efla vísindarannsóknir til muna með auknum fjárframlögum til málaflokksins.

Það sem Finnar hafa síðan séð er auðvitað að þær rannsóknir sem hafa fengið mest af þessum auknu fjármunum eru rannsóknir sem hægt er að tengja beint hagnýtt inn í atvinnulífið. Það er ekkert óeðlilegt við það. Og það er alveg hægt að lesa það úr frv. sem hér liggja fyrir að vilji stjórnvalda sem standa að baki þessum frv. virðist vera sá að bein tenging sé á milli rannsókna og hagnýtingar þeirra, þ.e. að þær geti nýst beina leið inn í atvinnulíf okkar.

Ég man að í fyrra þegar frv. komu fram þá gagnrýndum við ákveðið orðalag í einu þeirra, þ.e. frv. um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins. Við gagnrýndum orðalag í athugasemdum við lagafrumvarpið þar sem sagt var að eitt helsta inntak þessarar nýskipunar ætti að vera stefnumótun í vísindarannsóknum og tækniþróun og að hún byggðist á stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum á hverjum tíma. Ríkisstjórnin var gagnrýnd fyrir það í allri umfjöllun um málið að nú ætti að spyrða stefnumótun í vísindarannsóknum og tækniþróun þannig við stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum að það væri stefna ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum sem í raun segði til um hvaða hvaða rannsóknir fengju fjármuni úr hinum opinberu sjóðum. Þessi setning sem ég las var gífurlega mikið gagnrýnd. Ég fer kannski aftur yfir hana, með leyfi forseta, þannig að hún sé hér á hreinu. Í athugasemdum við lagafrv. stóð, síðast þegar það var lagt fram hér, svohljóðandi setning, með leyfi forseta:

,,Eitt helsta inntak þessarar nýskipunar er að stefnumótun í vísindarannsóknum og tækniþróun byggist á stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum á hverjum tíma.``

[17:15]

Þessari setningu hefur blessunarlega verið breytt. Í frv. eins og það kemur fyrir sjónir okkar í dag er setningin svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Ávinningur þess er einkum sá að vægi málaflokksins vex og að stefnumótunin og framkvæmd hennar verður markvissari en áður. Áherslur í vísindarannsóknum, tækniþróun og nýsköpun fær við það meiri umfjöllun og getur, í ríkari mæli en verið hefur, sett mark sitt á stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum.``

Hér er talað um svipaða hluti en á allt öðrum nótum, sem ég vil meina að gefi okkur von um að við séum með miklu gáfulegri hluti í höndunum en við höfðum undir vor á síðasta þingi. Tengsl vísindarannsókna við beina stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum koma til með að verða skoðuð í umfjöllun um þetta mál. Ég vil nefna sérstaklega í því sambandi, herra forseti, hættuna á því að rannsóknir muni í auknum mæli færast í að verða beint að því sem er hagnýtt fyrir atvinnuvegina en um leið gerist það að hugvísindi eða önnur vísindi, við skulum segja bara þróun í menningarmálum, menningu og listum, fái minna til sín. Í þessu er fólgin ákveðin hætta sem ég tel eðlilegt að við skoðum mjög gaumgæfilega. Við megum auðvitað ekki láta þessa breytingu verða til þess að hugvísindin verði sett skör neðar en hagnýt vísindi eða að rannsóknir á sviði menningarmála eða lista verði hornreka í þessu nýja kerfi. Auðvitað megum við ekki láta hið hagnýta sjónarmið ná þannig völdum að hugvísindin, menningarstarfsemin eða listirnar þurfi að gjalda fyrir það. Það verður á einhvern hátt að byggja inn í þessi frv., þegar þau á endanum verða komin í gegnum skilvindu sína og síu, að slík hætta verði alls ekki til staðar.

Ég vil bara nefna það, svo það komi fram, að ef hvati rannsókna á að vera gróðasjónarmið eða arðsemissjónarmið þá erum við að girða fyrir gífurlega stórt og mikilvægt þekkingarsvið í vísindastarfi okkar. Ég nefni það bara að það eru fáir sem græða á rannsóknum um femínisma eða í sjálfu sér rannsóknum sem tilheyra listastarfsemi. Það má auðvitað ekki vera þannig að arðsemishvatinn verði það mikill að aðrir þættir verði vanræktir.

Ég hef í sjálfu sér, herra forseti, einnig ákveðnar áhyggjur líka af stöðu opinberra rannsóknastofnana okkar. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að háskólarnir okkar verði hornreka eða settir til hliðar á einhvern varamannabekk í þessu nýja kerfi. Ég hef fulla þörf fyrir að heyra það frá hæstv. menntmrh. og/eða öðrum þeim hæstv. ráðherrum sem að þessum málum koma. Það vill þannig til að aðeins hæstv. menntmrn. situr hér í salnum núna. En ég hef fulla þörf fyrir að heyra að hér sé í raun engin sérstök hætta á ferðum, þ.e. að menn séu meðvitaðir um að okkar hefðbundnu opinberu rannsóknastofnanir þurfi að hafa eðlilegt vægi í þessu nýja mynstri, þessari nýju mynd sem hér er verið að skapa, eins og mér finnst að hafi verið reynt að halda fram hingað til.

Það er auðvitað mjög mikilvægt, eins og hæstv. menntmrh. talaði um og átti orðastað við hv. þm. Ögmund Jónasson, að einkafyrirtæki komi í auknum mæli inn í að fjármagna rannsóknir og það hafa þau verið að gera hér á Íslandi sem og annars staðar. Hæstv. menntmrh. hefur fagnað því hér í ræðustóli og það er sjálfsagt og eðlilegt. En hæstv. ráðherra verður líka að viðurkenna að það hefur færst í vöxt að fjársterkir aðilar vítt og breitt um heiminn hafi verið að fjármagna rannsóknir sem eru síðan jafnvel ekki birtar og verða aldrei ,,vísindunum`` að neinu gagni. Einkaaðilarnir kaupa þá til sín ákveðnar rannsóknir sem eru jafnvel iðnaðarrannsóknir eða rannsóknir beinlínis hagnýttar í þágu þessara stóru fyrirtækja. Auðvitað er sjálfsagt að slíkar rannsóknir fari fram en við verðum að passa okkur á að rannsóknastarf okkar fari ekki að einskorðast við rannsóknir af því tagi, þar sem niðurstöðurnar eru lokaðar inni í peningaskápum stórfyrirtækjanna.

Hæstv. ráðherra þekkir mætavel að þessi umræða fer fram í vísindasamfélaginu í dag. Hún er stöðugt að verða háværari vegna þess að það eru meiri brögð að því að stórfyrirtæki fjármagni rannsóknir sem koma síðan aldrei fyrir augu annarra vísindamanna og nýtast því ekki vísindasamfélaginu í stóru samhengi. Það er líka eðlilegt að í þessu samhengi komi upp hagsmunatengsl stórfyrirtækja og rannsóknarstofnana okkar. Það er eðlilegt að við ræðum um hagsmuni stórfyrirtækja sem geta orðið keypt sér prófessorsstöður í háskólunum. Það er eðlilegt að við ræðum alla fleti og hagsmunatengsl fyrirtækjanna við vísindaheiminn. Þar er svo sannarlega af mörgu að taka og ég segi fyrir mig, herra forseti, að það verður spennandi og fróðlegt að fara ofan í þessi mál í nefndum þingsins.

Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar. Ég tel þingmenn hafa fastara land undir fótum til að takast á við þessi mál nú en undir vor á síðasta þingi. Ég ítreka samt að þó að landslagið breytist með þessari nýskipan þá getum við aldrei horft fram hjá þörfinni fyrir aukið fjármagn til vísindarannsókna. Það hefur verið ein helsta gagnrýni vísindamanna hér á landi hingað til að sjóðir Ranníss hafi verið sveltir og hafi ekki haft úr nægilega miklu fjármagn að spila. Ég krefst þess að við höfum frelsi og svigrúm til að ræða stefnu í fjárveitingum samhliða umræðunni um frv. sem hér liggja fyrir og er ætlað að breyta landslaginu í vísindasamfélaginu.