Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 17:28:55 (1564)

2002-11-18 17:28:55# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[17:28]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að umræða af þessu tagi gæti leitt til þess að vísindamenn fari að skilgreina starfssvið sitt með öðrum hætti en hingað til. Ég ætla ekki að segja meira um það en mér finnst í öllu falli mjög mikilvægt að öll þessi sjónarmið séu tekin inn í myndina. Séu einhvers staðar fólgnar hættur eða fallgryfjur er umfjöllunin um þau mál hér til þess fallin að byrgja þær gryfjur. Það skiptir verulegu máli að við stöndum öll saman um að gera það svo vel sé til að við tryggjum að breytingar af þessu tagi verði ekki bara breytinganna vegna heldur vegna þess að við ætlum okkur að sameinast í þeirri viðleitni að efla vísindarannsóknir á Íslandi, hugvísindi og félagsvísindi jafnt og önnur hagnýt vísindi. Ég verð að segja að til þess virðist fullur vilji þeirra sem hér hafa talað, að slíkur árangur geti orðið af þessari umfjöllun.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Ég hlakka til að takast á við að skoða þessi mál í nefndunum og treysti því að þau verði áfram spyrt saman eins og gert er í þessari umræðu þannig að litið verði á þetta sem heild sem allar nefndirnar þrjár fái jafna möguleika til að ígrunda.