Samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:32:04 (1568)

2002-11-19 13:32:04# 128. lþ. 32.91 fundur 251#B samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:32]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að taka til máls um störf þingsins til þess að tilkynna þinginu samkomulag sem hefur orðið við Samtök aldraðra og var undirritað í morgun í Ráðherrabústaðnum. Samkomulagið varðar hækkun bóta til aldraðra og öryrkja og fjallar um mikilvægar hagsbætur til hinna lægst launuðu. Þar að auki fjallar samkomulagið um aðgerðir í málefnum aldraðra varðandi stoðþjónustu og heimaþjónustu og varðandi úrbætur í hjúkrunarrýmum og uppbyggingu á Vífilsstöðum sem verið hefur í umræðu. Þessar viðræður hafa staðið yfir undanfarnar vikur. Samkomulagið náðist í gærkvöldi. Samkomulagið mun leiða til hækkunar bóta um 1,6 milljarða á næsta ári. Fjárln. verða sendar tillögur um fjárhagshlið þessa máls fyrir 2. umr. fjárlaga, en fjmrh. skýrir nánar frá þeirri hlið mála.

Ég vildi skýra þinginu frá þessu vegna fréttamannafundar sem haldinn var í morgun, en þetta samkomulag er komið til vegna nefndar sem var skipuð í samráði ríkisstjórnarinnar og samráðsnefndar aldraðra. Ég vildi einungis tilkynna þinginu þessa niðurstöðu vegna þess að við héldum fréttamannafund um þetta í morgun, fjórir ráðherrar, félmrh., fjmrh., forsrh. og heilbrrh.