Samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:36:35 (1570)

2002-11-19 13:36:35# 128. lþ. 32.91 fundur 251#B samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það eru vissulega mikil tímamót í samstarfi ríkisstjórnarinnar og Landssamtaka eldri borgara þegar næst samkomulag á borð við það sem undirritað var í morgun. Ástæðulaust er að gera lítið úr því með því að benda á önnur vandamál sem enn kunna að vera óleyst.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur hér verið stigið mjög stórt skref til þess að koma til móts við þær kröfur og hugmyndir sem Landssamtök eldri borgara hafa haft uppi á undanförnum árum. Það er rétt að vekja athygli á því að þegar kemur að tryggingagreiðslunum þá er í þeim útreikningum sem við höfum undir höndum og hæstv. heilbrrh. vitnaði til, að sjálfsögðu reiknað með því að sams konar hækkanir renni til öryrkja. Þar er um að ræða greiðslur sem munu á næsta ári kosta 1.500--1.600 millj. kr. og birtast í formi hækkaðrar tekjutryggingar, tekjutryggingarauka og skertrar tengingar milli greiðslna og launa, þ.e. lægra skerðingarhlutfalls tekna. Og á árinu 2004 er gert ráð fyrir að heill milljarður bætist við.

Þegar allur þessi pakki er talinn saman á þriðja ári héðan í frá með öllum þeim ráðstöfunum sem ráðgerðar eru í sambandi við hjúkrunarheimilamálin, heimaþjónustu og margt fleira sem er að finna í þessu samkomulagi, má gera ráð fyrir því að hann kosti rúma 5 milljarða kr. miðað við það sem gert er í dag þannig að 5 milljarðar munu bætast við fjárlögin árið 2005 á grundvelli þessarar yfirlýsingar sem nú hefur verið gefin. Ég held að menn hefðu nú tekið ofan hattinn fyrir minni aðgerðum en þessum.