Samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:38:43 (1571)

2002-11-19 13:38:43# 128. lþ. 32.91 fundur 251#B samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessar upplýsingar. Við eigum að sjálfsögðu eftir að fá þær miklu nánari. En þó er eitt augljóst, að mikilvægur áfangi er hér kominn fram í réttinda- og kjarabaráttu samtaka eldri borgara sem hefur verið háð undanfarin ár og það er greinilegt að þeim hefur nú tekist að knýja ríkisstjórnina til viðsnúnings, fá hana til að snúa af þeirri óheillabraut sem hún hefur verið á á undanförnum árum, en sem öllum er kunnugt hafa kjör eldri borgara ekki þróast í samræmi við það sem gerst hefur almennt í landinu á liðnum árum. Verður bilið brúað með þessum aðgerðum? Nei, en það minnkar. Þetta er að vísu ekki í samræmi við þá hugmyndafræði sem eldri borgarar hafa lagt til grundvallar, en hún er sú að efla almannatryggingar sem tryggingakerfi. Þær hækkanir sem nú er verið að semja um eru hækkanir á tekjutryggingunni og tryggingaraukanum. Þetta felur í sér kjarabætur fyrir marga og því bera að sjálfsögðu að fagna.

Einnig er mjög mikilvægt að heimaþjónustan og margvísleg stoðþjónusta skuli verða styrkt. Ég fagna þessu sérstaklega. En þetta er árangur af þrotlausri baráttu eldri borgara og sýnir okkur hverju baráttan getur skilað.