Samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:40:23 (1572)

2002-11-19 13:40:23# 128. lþ. 32.91 fundur 251#B samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.# (aths. um störf þingsins), SvH
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:40]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það má með sanni segja að nú séu mikil tímamót í samskiptum hæstv. ríkisstjórnar og eldri borgara ef þetta er eins bitastætt og menn halda hér fram sem í fyrirsvari eru. Sagan undanfarin ár er allt önnur svo að ef þetta er eins og það lítur við fyrsta augnakast út mikilvægt og mikil kjarabót fyrir aldraða og öryrkja þá er hér um gerbreytt tímamót að tefla í samskiptum þessara tveggja aðila. Það var svo sem auðvitað að fréttamenn þyrftu að sitja fyrir um þessar upplýsingar áður en hið háa Alþingi fengi að fjalla um þær. En þar sem hv. þingmönnum er með öllu ókunnugt að heita má um innihald þessa samkomulags þá geri ég ráð fyrir því að innan tíðar verði rækileg og ítarleg umræða um þessi mikilvægu mál.

Fyrir kosningar árið 1999 var líka stofnuð nefnd sem átti að vinna að kjarabótum aldraðra, þ.e. ríkisstjórn og aldraðir, eldri borgarar. Allt sem þar var stefnt að var að engu haft og þessu hafa forustumenn eldri borgara marglýst yfir. Hvar sem borið er niður varðandi kjör aldraðra þá hafa þeir ekki eingöngu verið látnir sitja á hakanum heldur hafa beinar yfirlýsingar verið sviknar af stjórnvöldum. Nú er verið að semja. Ríkisstjórn á síðasta ári er að semja um þessar kjarabætur og þá væntanlega að gera samninga fyrir nýja stjórn sem þá verður ekki kölluð til ábyrgðar.