Samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:42:31 (1573)

2002-11-19 13:42:31# 128. lþ. 32.91 fundur 251#B samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:42]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er sérstök ástæða til að fagna því að hæstv. ríkisstjórn hefur horfið af þeirri braut andvaraleysis sem ríkt hefur í málefnum aldraðra af hennar hálfu. Það er ekki seinna vænna svona rétt í lok kjörtímabilsins en að menn taki til hendi og semji svolítið fram í tímann. (SvH: Og kosningar fram undan.) Og kosningar eru fram undan. Ég hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér þetta samkomulag ítarlega en heyrði hæstv. heilbrrh. minnast á að það stæði m.a. til að bæta úr varðandi hjúkrunarrými fyrir aldraða sem ég tel vera sérstaklega mikilvægt. Ég vona þá í leiðinni að hæstv. ríkisstjórn taki sig á og sinni skyldu sinni í þeim efnum varðandi fjármögnun slíkra heimila vegna þess að svo virðist sem nú nýverið hafi menn uppgötvað að það er skylda ríkisins að fjármagna slík heimili að 80% hluta, en nú nýverið var gerður samningur um Markarholtsheimilið í Reykjavík þar sem ríkið fjármagnar þetta að 70% hluta. Einhverra hluta vegna er því sem sveitarfélögin hafi ekki áttað sig á hver hlutur ríkisins er í þessum efnum.

Herra forseti. Ég held að það sé löngu orðið tímabært að bæta þarna verulega úr. Í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu bíða hundruð einstaklinga eftir slíkri þjónustu og ekki er seinna vænna en því sé sinnt. Því geri ég ráð fyrir að hæstv. ríkisstjórn hyggist líka sinna skyldu sinni varðandi fjármögnun þessara heimila í framtíðinni en komi ekki þeirri skyldu yfir á aðra eins og reyndin hefur því miður verið og nú síðast með undirritun síðasta samnings þar sem fjármögnun ríkisins var einungis 70%.