Matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:48:52 (1576)

2002-11-19 13:48:52# 128. lþ. 32.92 fundur 252#B matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:48]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það er rétt að hv. þm. Steingrímur Sigfússon hafði samband við mig og bað um utandagskrárumræðu um þetta mál. Ég lét kanna það hvort eðlilegt væri að ég færi í slíka umræðu. Út úr þeirri könnun kom, sem ég vissi reyndar, að ég er úrskurðaraðili í þessu máli og get ekki tekið til máls í efnislegri umræðu um það. Ég get einungis upplýst hvernig ég hef unnið að þessu máli og hver staða málsins er að því leyti. Ég hef rætt við alla aðila sem sent hafa inn kærur og aðra aðila sem ég tel að tengist málinu. Ég mun taka mér tíma, alla vega fram að mánaðamótum, til þess að kveða upp þennan úrskurð. Það stendur í lögum, þó að sá frestur sé liðinn núna, að ráðuneytið hafi ríka rannsóknarskyldu í þessum efnum.

Ég hef fengið einvala lið manna til að skoða þetta mál og ég vil upplýsa hverjir þeir eru. Það eru: Eiríkur Tómasson prófessor, Eiríkur G. Gunnarsson hæstaréttarlögmaður, Birgir Jónsson, dósent við Háskóla Íslands, Kristín Svavarsdóttir frá Landgræðslu ríkisins, Kristinn Haukur Skarphéðinsson líffræðingur, Sigurður Erlingsson verkfræðingur, prófessor við Háskóla Íslands, dr. Conor Skehan frá Írlandi, Arnheiður Hjörleifsdóttir landfræðingur, mastersnemi við Háskóla Íslands. Auk þess stjórna vinnunni fyrir mína hönd í ráðuneytinu Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóri og Guðríður Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri.