Matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:57:10 (1580)

2002-11-19 13:57:10# 128. lþ. 32.92 fundur 252#B matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:57]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að nefna við þessa umræðu að hér eru að myndast sérstæðar hefðir ef fram heldur sem horfir, þ.e. að ef stjórnmálamenn tjái sig um málefni þá séu þeir síðar vanhæfir til að fjalla um mál sem koma inn á þeirra borð. Hvert er hlutverk stjórnmálamanna? Er það ekki að setja fram viðhorf, er það ekki að setja fram skoðanir, er það ekki að setja fram hugmyndir og tala fyrir stefnum? Ef þeir tala fyrir tilteknum málum, eru þeir þá vanhæfir?

Tiltekið mál var kært til umhvrh. Ráðherra sagði sig frá málinu sökum þess að hún hafði áður fjallað um það á opinberum vettvangi. Þá segir settur umhvrh. að hann geti ekki talað fyrir málinu hér af því að hann sé að fjalla um kæru. Þetta eru eins og einhvers konar dómarar, að sömu vanhæfisreglur gildi um ráðherra í umræðum hér á hinu háa Alþingi þar sem mönnum er skylt að koma og gera grein fyrir afstöðu sinni til málefna og upplýsa aðra um hana. En vegna þess að hér eru mál til meðferðar og þeir settir tímabundið til verksins þá geta þeir ekki tjáð sig.

Ég spyr bara: Á hvaða vegferð erum við í þessum efnum? Ég ætla bara að vona í guðs bænum að menn leggi nú af þessa vitleysu og hafi í huga það sem Halldór Ásgrímsson nefndi einhvern tíma, að hlutverk stjórnmálamanna væri að hafa skoðun. Ég held að hæstv. heilbrrh. eigi að hafa skoðun í málinu og ætti að tjá sig um það þó að síðar meir eigi ráðherrann á einhvern lögfræðilegan hátt að fjalla um úrskurð í málinu. Mér finnst það alveg fráleit sjónarmið sem hér hafa verið sett fram af hálfu hæstv. heilbrrh.