Matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 14:00:54 (1582)

2002-11-19 14:00:54# 128. lþ. 32.92 fundur 252#B matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[14:00]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram að umræður um virkjunarstefnuna og rammaáætlun er auðvitað sjálfsagt að taka á Alþingi. Ég tel það þó ekki mitt hlutverk sem setts umhvrh. að gera það. Hins vegar skal ég taka allar umræður utan dagskrár sem falla undir mitt ráðuneyti í tilefni af orðum hv. 3. þm. Norðurl. e. um að ráðherrar væru að neita utandagskrárumræðum. Ég hef aldrei neitað utandagskrárumræðu. Ég skal taka við ykkur utandagskrárumræður (Gripið fram í: Þú færð ...) um mitt verksvið. Eingöngu vegna þess að ég er úrskurðaraðili í þessu máli og ekkert annað vil ég ekki fara í utandagskrárumræðu um það. Að öðru leyti hefur það enga stefnumörkun af minni hálfu.

Varðandi vanhæfni vil ég láta koma fram að ég hef skoðað sérstaklega mál Birgis Jónssonar. Ég hef fengið um það mál það álit að hann sé ekki vanhæfur. Varðandi Náttúruvernd ríkisins hef ég kallað í alla þá aðila, ég hef kallað í Náttúruverndarsamtök Íslands, ég hef setið með þeim á fundum, ég hef kallað í alla kærendur, rætt við þá alla persónulega og alla frá báðum hliðum þessa máls, (Gripið fram í: Alla persónulega?) alla sem að málinu hafa komið. Því fer víðs fjarri að ég hafi hunsað andstæðinga málsins, síður en svo, og ég er tilbúinn til að ræða við þá hvenær sem vera skal, og hef gert það.

Lögfræðingurinn, hv. 6. þm. Suðurl., hlýtur að tala gegn betri vitund ef hann heldur því fram að ég geti tjáð mig efnislega um þetta mál. Ég held að hann hljóti að verða að fara í kúrs aftur.