Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 14:11:41 (1586)

2002-11-19 14:11:41# 128. lþ. 32.9 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[14:11]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna.

Eins og rakið er í greinargerð með frv. þessu er með því kveðið á um tvær breytingar á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna.

Frv. er lagt fram að beiðni stjórnar lífeyrissjóðsins sem komst samhljóða að þeirri niðurstöðu að rétt væri að gera þær breytingar sem frv. felur í sér. Með frv. eru nánar tiltekið lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um ellilífeyri og makalífeyri. Tilgangurinn er að bæta stöðu sjóðsins en samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt Talnakönnunar hf., dags. 13. febrúar 2002, á stöðu sjóðsins miðað við 31. desember 2001 vantaði 7.514 millj. kr. á að sjóðurinn ætti eignir á móti heildarskuldbindingum, þ.e. 8,8%. Í skýrslu Talnakönnunar kemur fram að staða sjóðsins hafi versnað frá árslokum 2000 úr 6% halla miðað við heildarskuldbindingar í 8,8% halla. Ástæður þess að staðan versnar eru annars vegar neikvæð ávöxtun annað árið í röð og hins vegar betri lífeyrisréttindi hjá sjóðnum en hjá öðrum sjóðum þar sem skylduiðgjald er 10%. Betri réttindi hjá Lífeyrissjóði sjómanna felast fyrst og fremst í óskertum ævilöngum makalífeyri sem þekkist nánast ekki hjá öðrum sjóðum sem ekki njóta bakábyrgðar launagreiðanda.

Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða má heildarstaða lífeyrissjóðs aldrei vera verri eða betri en 10% af heildarskuldbindingu og jafnframt má staðan ekki vera verri eða betri en 5% samfellt í fimm ár. Staða Lífeyrissjóðs sjómanna er því innan þess ramma sem lögin setja þar sem heildarstaðan er innan 10% markanna og hún var innan 5% markanna fyrir tveimur árum. Hins vegar kemur fram í skýrslu Talnakönnunar að það sé nokkuð ljóst að staðan muni fara niður fyrir þessi mörk á næsta ári. Nýjar töflur um lífslíkur sem þá verða notaðar sýna að langlífi eykst enn þannig að staðan mun versna um 1--2% vegna þeirra.

Ég vil þá, herra forseti, gera nánari grein fyrir efnisatriðum frv.

Eins og áður segir eru makalífeyrisréttindi Lífeyrissjóðs sjómanna betri en þekkist í sambærilegum sjóðum. Breytingarnar sem hér eru lagðar til leiða ekki til skerðingar á rétti þeirra sem hafa hafið töku lífeyris. Afnuminn er réttur til óskerts ævilangs makalífeyris en tekið upp svokallað sólarlagsákvæði sem þýðir að þeir sem eru fæddir fyrir árið 1965 eiga rétt á ævilöngum makalífeyri og þeir sem fæddir eru fyrir árið 1945 njóta óskerts makalífeyris en rétturinn minnkar síðan eftir því sem eftirlifandi maki er yngri. Þó er ávallt greiddur óskertur makalífeyrir þegar yngsta barn á framfæri makans er yngra en 19 ára og einnig ef eftirlifandi maki er a.m.k. 50% öryrki.

Samkvæmt núgildandi lögum geta sjóðfélagar í Lífeyrissjóði sjómanna hafið töku ellilífeyris frá 60 ára aldri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, lögskráningu í a.m.k. 25 ár í 180 daga að meðaltali á ári. Ef taka hefst fyrir 65 ára aldur lækkar upphæð ellilífeyris um 0,4% fyrir hvern mánuð sem vantar upp á 65 ára aldur þegar taka hefst. Sú lækkun dugar þó ekki til þess að sjóðurinn standi eins að vígi og ef taka hæfist við 65 ára aldur. Það eru því í raun þeir sjóðfélagar sem ekki eiga rétt á töku ellilífeyris fyrir 65 ára aldur sem standa undir þeim kostnaði sem sjóðurinn hefur af því að greiða lífeyri fyrr ef lækkunin er ekki tryggingafræðilega rétt reiknuð. Hér er því lagt til að öllum sjóðfélögum verði gefinn kostur á að hefja töku ellilífeyris frá 60 ára aldri og að lækkun vegna þess að töku er flýtt verði tryggingafræðilega rétt. Hið sama gildir um hækkun lífeyris þegar töku er frestað. Sams konar ákvæði eru í samþykktum annarra lífeyrissjóða sem sjómenn greiða til, svo sem Lífeyrissjóðs Vestfirðinga, Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og Lífeyrissjóðs Austurlands.

Talnakönnun hefur reiknað út áhrif þeirra breytinga sem hér eru lagðar til á stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna. Samkvæmt þeim útreikningum mun staða sjóðsins miðað við árslok 2001 batna um 6.252 millj. kr., og halli miðað við heildarskuldbindingar lækkar úr -8,8% í -1,6%.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði að 1. umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.