Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 14:18:47 (1588)

2002-11-19 14:18:47# 128. lþ. 32.9 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[14:18]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að breytingin sem gerð var 1999 hefur ekki nægt er sú að nú hefur í tvö ár í röð verið neikvæð ávöxtun á eigin fé sjóðsins, eins og ég gat um í ræðu minni, og réttindin eru einnig betri, þrátt fyrir fyrri skerðingar, en almennt gerist í sambærilegum lífeyrissjóðum.

Það sem er óvenjulegt um þennan sjóð er að sjálfsögðu að um hann skuli gilda sérstök lög. Það kemur auðvitað til athugunar að mínum dómi að afnema þau og fella Lífeyrissjóð sjómanna undir hina almennu löggjöf um lífeyrissjóði. Væru ekki sérlög um þennan sjóð og hann þyrfti að grípa til ráðstafana á grundvelli lagaákvæðanna almennu, um hve mikill halli megi vera á sjóðnum og hve lengi, hefði það að sjálfsögðu verið gert á aðalfundi sjóðsins eða ársfundi hans. Það er gert í öllum öðrum sjóðum þegar þessi staða kemur upp og kemur ekki til kasta Alþingis. Það er það óvenjulega.

Aðrir sjóðir hafa þurft að gera þetta, grípa til réttindaskerðingar eða eftir atvikum aukið réttindi. Þá er það gert á vettvangi sjóðsins en ekki fyrir atbeina löggjafarvaldsins. Þess vegna má velta því yfir sér hvort það sé lengur eðlilegt að um þennan sjóð gildi sérstök lög.

Hitt er annað mál að stjórn sjóðsins starfar með ábyrgum hætti og leggur þetta til samhljóða, að gripið verði í taumana með þeim hætti sem hér er lagt til. Það er að vísu engin skemmtiaðgerð en það er óhjákvæmilegt miðað við aðstæður í þessu máli.

Ég vil svo bæta því við, herra forseti, að ég tel sjálfsagt að þingnefndin fái öll þau gögn sem tiltæk eru um þetta. Hún verður að sjálfsögðu að kalla fyrir sig stjórn sjóðsins sem gerir þá tillögu sem fram kemur í þessu frv.