Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 14:20:55 (1589)

2002-11-19 14:20:55# 128. lþ. 32.9 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[14:20]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Já, ég átta mig á því að þessi leið sem hér er valin, að skerða áfram réttindi sjóðfélaga vegna neikvæðrar ávöxtunar eins og hæstv. ráðherra nefnir, er gerð í fullu samráði við forsvarsmenn sjóðsins. Engu að síður tel ég þetta nokkuð alvarlegt, að við skulum hér með reglulegu millibili vera að fjalla um skerðingu á réttindum sjómanna og maka þeirra.

Hæstv. ráðherra segir að réttindi þeirra séu betri en hjá mörgum öðrum og það má vel vera en á því eru líka ákveðnar skýringar. Það eru líka betri réttindi hjá ýmsum í opinbera geiranum, eins og ráðherrum og þingmönnum, en öðrum opinberum starfsmönnum. Menn fara því ekki endilega út í að skerða þau þó að þau réttindi séu betri. Þess vegna finnst mér það ekki endilega vera rök, að það eigi að fara með réttindi sjómanna niður í það sem almennt gerist, eins og mér fannst á hæstv. ráðherra.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort það hafi verið rætt við forsvarsmenn sjóðsins að fara þá leið sem ráðherrann nefnir hér, að afnema lögin um Lífeyrissjóð sjómanna og fella réttindi og skyldur þeirra undir almenn réttindi um líferyissjóðanna. Hvernig hefur því verið tekið?

Ég held að við hljótum að fara alvarlega ofan í þetta og athuga hvað hefur gerst. Var farið offari í erlendri fjárfestingu, að því er varðar fjármagn sjóðsins? Hvað var það sem fór úrskeiðis að því er þetta varðar? Hefur Fjármálaeftirlitið með einhverjum hætti farið ofan í Lífeyrissjóð sjómanna sérstaklega? Ég tek eftir því að í því máli sem við fjöllum um hér á eftir, máli viðskrh. varðandi Fjármálaeftirlitið, þá finnast mér koma nokkuð alvarlegar athugasemdir fram varðandi ýmsa lífeyrissjóði sem þarf að skoða. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort Fjármálaeftirlitið hafi komið nálægt þessum sjóði.

En við munum auðvitað kalla eftir öllum gögnum í þessu máli. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það að ætla að sjá til að nefndin fái þau gögn sem hún þarf frá Talnakönnun og gögn um hvaða áhrif þetta hefur á réttindin.