Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 14:27:40 (1592)

2002-11-19 14:27:40# 128. lþ. 32.9 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[14:27]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé best að tala alveg skýrt um þetta mál. Ríkissjóður ber ekki neina ábyrgð á skuldbindingum þessa sjóðs og hefur þar enga bakábyrgð með svipuðum hætti og hjá þeim lífeyrissjóði sem hv. fyrirspyrjandi þekkir best, þ.e. Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ég tel ekki koma til álita að veita sérstakt fjármagn af ríkisins hálfu í þennan sjóð. Við skulum hafa það í huga að ýmsir aðrir sjóðir eiga og hafa á fyrri tíð átt í miklum fjárhagserfiðleikum og þar hafa ýmsir einstaklingar farið halloka og tapað mikilvægum réttindum gegnum tíðina vegna þess hvernig komið var fyrir þeim sjóðum.

Svarið við þessari spurningu er þannig alveg afdráttarlaust. Ég tel ekki koma til greina að veita fjármagn, t.d. af fjárlögum, í Lífeyrissjóð sjómanna.

Það sem gerðist árið 1981 var auðvitað að í allri efnahagsvitleysunni sem einkenndi þá tíma töldu menn að þeir væru að gera sérstakt góðverk með því að auka réttindin í Lífeyrissjóði sjómanna án þess að tryggja að sjóðurinn gæti staðið undir því, þá með því að skerða réttindi annars staðar eða með einhverjum öðrum hætti. Það var ekki gert. Síðan hefur lífeyrissjóðurinn reynt að knýja á um að ríkisvaldið greiddi fyrir þessa réttindabót en því hefur verið hafnað. Það mál fór fyrir dómstóla fyrir ekki löngu síðan, endaði í Hæstarétti Íslands þar sem málið var dæmt svo að ríkinu bæri ekki skylda til þess að standa straum af kostnaði vegna þessa. Það er því alveg skýrt.

Hins vegar kennir þetta okkur náttúrlega að við eigum ekki, sem liðar í efnahagsaðgerðum, að grípa til ráðstafana eins og þessarar sem gert var 1981. Ég held að engum mundi detta það í hug í dag að grípa þannig inn í málefni einstaks lífeyrissjóðs eins og þá var gert, jafnvel þó að til skamms tíma auki það réttindi ákveðins hóps sem á réttindi í sjóðnum. Það var mjög óviturleg aðgerð.