Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 14:31:50 (1594)

2002-11-19 14:31:50# 128. lþ. 32.9 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. sem við ræðum hér um málefni Lífeyrissjóðs sjómanna er því miður slíkt að enn þarf að grípa til þess ráðs að skerða réttindi. Það er auðvitað aldrei til vinsælda fallið að þurfa að takast á við slík mál. Samt sem áður er þessi skylda er lögð á herðar stjórnarmanna í öllum lífeyrissjóðum samkvæmt almennum lögum um starfsemi lífeyrissjóða og skyldutryggingu lífeyrisréttinda frá 1997. Þess vegna er það svo í þessu máli að stjórnin sem slík á ekki annarra kosta völ en leggja til einhverja þá aðgerð sem getur orðið til þess að setja lífeyrissjóðinn í rekstrarlega stöðu miðað við lögin til framtíðar. Það breytir hins vegar ekki því að staða Lífeyrissjóðs sjómanna er að ýmsu leyti mjög sérstök og mig langar til að gera það hér að umræðuefni, herra forseti.

Í fyrsta lagi er rétt að víkja að því sem hæstv. fjmrh. og hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndu áðan varðandi 60 ára regluna. 60 ára reglan var sett á með lögum frá 1981. Hún var svokallaður félagsmálapakki. Sjómenn alla vega stóðu í þeirri trú að svo háttaði til um þennan félagsmálapakka eins og aðra félagsmálapakka sem þá voru afgreiddir til launþegasamtaka, að þeim fylgdi einhver ábyrgð og einhver greiðsluskylda eða þá einhver sú útfærsla sem dygði til að dekka þá ábyrgð sem á sjóðfélaga í sjóðnum mundi ella falla. Hvers vegna skyldu menn hafa gert sér vonir um að þetta yrði svoleiðis? Jú, það var vegna þess að á þessum tíma sömdu sjómenn sérstaklega um að fiskverð hækkaði minna en ella hefði orðið. Þetta var hluti af samningi við ríkisstjórnina á sínum tíma um að reyna að hafa áhrif á verðlag og kaupgjald í landinu. Niðurstaðan varð sem sagt sú að gefið var eftir í kröfum um hækkun fiskverðs en í staðinn fengju sjómenn þennan félagsmálapakka. Þrátt fyrir þann dóm sem genginn er í Hæstarétti um að ríkið sé ekki skuldbundið vegna þessarar lagasetningar þá viðurkenndi ríkið í raun og veru samt að mínu viti ákveðna greiðsluskyldu samfara þessari lagasetningu. Það gerðist t.d. þegar gengið var fellt á árum áður að úr svokölluðum gengismunasjóði voru lagðar nokkrar upphæðir í Lífeyrissjóð sjómanna og merktar sérstaklega til þess m.a. að minnka vanda sjóðsins. Þetta veit ég að hæstv. fjmrh. veit, enda geri ég ráð fyrir að hann hafi kynnt sér vel málatilbúnað ríkisins og sjómannasamtakanna í þessu hæstaréttarmáli.

Þess vegna eru sjómannasamtökin eðlilega ekki sátt við niðurstöðu Hæstaréttar og hafa verið að velta því fyrir sér hvort þetta mál gæti gengið áfram til mannréttindadómstóls í ljósi þess að með lagasetningunni var byrðin af 60 ára reglunni lögð á aðra sjómenn eins og fram kom í máli manna áðan. Aðrir sjóðfélagar en út tóku báru því þessar byrðar. Ég veit ekki hvort lagasetning getur yfirleitt verið með þeim hætti á hv. Alþingi að hægt sé að setja lög um að einn hópur manna taki að sér að greiða öðrum hópi manna eitthvert sérstakt kaup eða sérstakan lífeyri. Því verð ég að segja eins og er að mér fannst niðurstaðan í dómi Hæstaréttar í þessu máli afar furðuleg. Ég er afar ósáttur við að hún skyldi vera með þessum hætti. En hæstaréttardómur er jú það sem hann er, æðsta niðurstaða í dómskerfi okkar Íslendinga.

Í þessu frv. er hins vegar verið að leggja til að taka á vanda sjóðsins sem enn á ný er sá að svo lítur út að sjóðurinn eigi ekki fyrir skuldbindingum sínum og þess vegna verði að grípa til einhverra ráða. Sá sem hér stendur hefur lagt fram frv. í Alþingi um að útgerðin greiði í Lífeyrissjóð sjómanna tímabundið, 2% ofan á laun, ofan á þann greiðslustofn sem þeir greiða í lífeyrissjóðinn sem er 6%, eingöngu til þess að bæta stöðu sjóðsins, ekki til þess að auka réttindi sjómanna sem greiða í sjóðinn heldur eingöngu til þess að stækka pottinn og geta þá mætt þeim slaka sem orðið hefur í sjóðnum m.a. af völdum 60 ára reglunnar sem nefnd var áðan.

Annað þarf einnig að ræða sérstaklega þegar við tölum um Lífeyrissjóð sjómanna og það er örorkulífeyrisþátturinn. Örorkulífeyrisþátturinn í Lífeyrissjóði sjómanna hefur verið á bilinu 40--45%. Hann er núna talinn um 43%. Aðeins tveir lífeyrissjóðir á landinu bera hærri byrði í örorku. Hverjir skyldu það vera? Það er Lífeyrissjóður Vestmannaeyja með 45% örorkuþátt og Lífeyrissjóður Austurlands með 45%. Síðan koma auðvitað aðrir lífeyrissjóðir sem einnig hafa verið með marga sjómenn innan sinna vébanda, t.d. Lífeyrissjóður Bolungarvíkur sem er með 40% og Lífeyrissjóður Suðurnesja með 40%.

Meðaltal 40 lífeyrissjóða sem ríkið hefur enga bakábyrgð á er slíkt að þeir sjóðir verja að meðaltali 26% útgjalda sinna í örorkuþáttinn. Að þessu leyti eru þeir lífeyrissjóðir sem sjómenn eru tryggðir í því verulega frábrugðnir. Þau rök m.a. hef ég notað til að rökstyðja það að eðlilegt væri að útgerðin greiddi meira í Lífeyrissjóð sjómanna til að koma í veg fyrir að sjóðfélagar yrðu fyrir endalausum skerðingum, en þessar tölur sem ég hef nefnt leiða til þeirrar niðurstöðu að lífeyrissjóðir sjómanna virka eins og tryggingafélag fyrir útgerðina.

Auðvitað valda störf mismunandi álagi. Störf til sjós valda miklu álagi. Slysahætta er þeim samfara en einnig hafa þau veruleg áhrif á stoðkerfi líkamans. Það hefur komið í ljós við könnun á örorkuþætti Lífeyrissjóðs sjómanna m.a. að það er jú stoðkerfi líkamans sem gefur sig. Menn verða því öryrkjar vegna þess og hins vegar vegna slysa. Þetta eru stærstu þættirnir, hvor tveggja mjög starfstengdur þáttur, og verða ekki færð nein önnur rök fyrir þessu en þau að álagið sem sjómennskan veldur, bæði áhættan í starfinu og eins líkamlegt álag við störfin, valdi því að örorkan er sú sem raun ber vitni.

Ég tel að ekki verði unað við þetta ástand eins og málin eru í pottinn búin og þótt þær leiðir verði nú farnar sem stjórn lífeyrissjóðsins leggur til, sem ég tel í sjálfu sér vera kannski mildustu leiðirnar sem hægt er að fara í þeim vanda sem núna er uppi, þá er samt engin trygging fyrir því að ekki þurfi að grípa til aðgerða aftur eftir eitt eða tvö ár, einkum ef raunávöxtun Lífeyrissjóðs sjómanna verður slæm. Við vitum að lífaldur fólks er að lengjast. Það mun leggja auknar byrðar á lífeyrissjóði almennt, jafnt Lífeyrissjóð sjómanna sem annarra. Menn geta þess vegna innan skamms tíma staðið frammi fyrir því að þurfa að taka á þessu vandamáli aftur. Ég tel og vil leggja það inn í þessa umræðu að það eigi að skoða virkilega vel í þeirri nefnd sem þetta mál fær til umfjöllunar hvort ekki sé orðið tímabært að taka upp þau sjónarmið sem ég hef m.a. flutt hér í ræðum þegar ég hef mælt fyrir auknum inngreiðslum útgerðarmanna í Lífeyrissjóð sjómanna, þ.e hvort ekki sé eðlilegt að útgerðarmenn beri miklu meiri áhættu varðandi örorkuþáttinn en þeir hafa gert á undanförnum árum. Það má t.d. gera með því að nota meðaltalið sem ég nefndi, sem er 26%, þ.e. meðaltal fleiri en 40 lífeyrissjóða sem ríkið ber enga bakábyrgð á og miða við þá tölu t.d. að Lífeyrissjóður sjómanna beri eigi meira en 25--26% af örorkuþættinum, en það sem umfram er verði útgerðin að fjármagna.

Það er ekki eðlilegt að lífeyrissjóðirnir virki eins og tryggingafélag fyrir útgerðina eins og ég sagði áðan. Það er sjálfsagt að lífeyrissjóðir taki á sig eðlilegan hluta af skuldbindingum varðandi örorkuþátt, jafnt Lífeyrissjóður sjómanna sem aðrir. En það sem er verulega umfram meðaltalið --- og meðaltalið er náttúrlega byggt á því að þessi lífeyrissjóðir sjómanna sem ég taldi upp séu inni í meðaltalinu. Talan væri náttúrlega mun lægri ef þeir væru teknir út fyrir sviga --- þ.e. að það sé a.m.k. ekki tekið meira út úr lífeyrissjóðnum en sem nemur þessu meðaltali. Ég legg til að þessi tillaga verði rædd vandlega í nefnd og að skoðað verði hvernig megi útfæra hana.

Ég hef verið þeirrar skoðunar í þeim málum sem ég hef flutt um Lífeyrissjóð sjómanna að þessu markmiði hefði verið hægt að ná með sérstakri inngreiðslu, 2% álagi frá útgerðarmönnum inn í lífeyrissjóðinn, tímabundið. Einnig mætti semja um einhvers konar þannig fyrirkomulag að þeir tækju á sig örorkuþáttinn að hálfu leyti þannig að það sem á sjóðinn félli væri til jafns við meðaltal annarra lífeyrissjóða í landinu. Ef það væri gert vænkaðist staða Lífeyrissjóðs sjómanna verulega og mun minni líkur væru á því að enn á ný þyrfti að koma með frv. eftir kannski eitt eða tvö ár til þess að skerða enn á ný réttindi félaga í Lífeyrissjóði sjómanna. Þó að við tölum í þessum orðum um Lífeyrissjóð sjómanna þá á þetta reyndar við um aðra lífeyrissjóði sjómanna, þ.e. þar sem þeir eru tryggðir, hvort heldur það er í Lífeyrissjóði Austurlands, Vestfjarða eða Vestmannaeyja svo að dæmi sé tekið. Ég tel að það væri ábyrg afstaða af hálfu Alþingis að taka þetta mál til gaumgæfilegrar skoðunar þar sem nú er verið að fjalla um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna. Menn eiga að fara í þá stefnumótun að skoða hvernig hægt sé að taka hluta af örorkuþættinum og færa þann hluta yfir á herðar útgerðarinnar.

[14:45]

Ég tel óeðlilegt að sjómannastéttin beri þennan kostnað ein með því að fjármagna hann eingöngu gegnum lífeyrissjóðinn. Haldi fram sem horfir þarf að skerða réttindi í þessum sjóði enn frekar og öðrum sjóðum sem hafa sjómenn innan sinna vébanda. Hafi ég skilið það rétt eru til lífeyrissjóðir í landinu, ég held bankamanna eða einhvers bankans, Búnaðarbankans hygg ég, þar sem byrði örorkunnar er undir 2%. Það segir sig náttúrlega sjálft að lífeyrissjóður sem svona er í pottinn búið með, sem þarf ekki að bera nema 2--4% örorku félagsmanna er miklu betur í stakk búinn til að viðhalda réttindum lífeyrisþega jafnvel þó að ávöxtunin væri ekki jákvæð, væri ekki plúsmegin um tveggja eða þriggja ára skeið.

Hvað hefur gerst í Lífeyrissjóði sjómanna? Ávöxtunin hefur farið verulega niður. En það breytir ekki því að miðað við hærri lífslíkur á næstu árum hefði sjóðurinn staðið fyrir þessari aðgerð á næsta ári, þó að ávöxtunin hefði verð skárri. Að öllu samanlögðu get ég ekki annað séð en stjórn lífeyrissjóðsins hafi einfaldlega orðið að leggja þetta til. Samt finnst mér að Alþingi eigi að skoða hvernig laga megi þessa stöðu. Ég tel að þegar viðkomandi aðilar mæta fyrir nefnd þurfi að ræða með hvaða hætti megi létta á örorkuþættinum í Lífeyrissjóði sjómanna.

Í þessu frv. er lagt til að bæði makalífeyri og ellilífeyri verði breytt örlítið, þó fyrst og fremst makalífeyrinum. Hér er sagt að ástæða fyrir versnandi stöðu sé annars vegar neikvæð ávöxtun og hins vegar betri lífeyrisréttindi en hjá öðrum sjóðum. Það er alveg rétt. Að sumu leyti hefur Lífeyrissjóður sjómanna verið með betri réttindi, m.a. í makabótunum, en margir aðrir lífeyrissjóðir.

Mér finnst líka rétt að gera að umræðuefni almennu lögin um starfsemi lífeyrissjóða frá 1997. Þau kveða á um að lífeyrissjóðir eða stjórnir lífeyrissjóða skuli samkvæmt fyrir fram gefinni formúlu bregðast við. Þar segir að samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrissjóða og starfsemi lífeyrissjóða megi heildarstaða lífeyrissjóða aldrei verða verri eða betri en 10% af heildarskuldbindingum. Jafnframt má staðan ekki verða verri eða betri en 5% samfellt í fimm ár. Síðan segir hér í greinargerðinni: ,,Staða Lífeyrissjóðs sjómanna er því innan þess ramma sem lögin setja þar sem heildarstaðan er innan 10% markanna.``

Ég hef velt því fyrir mér varðandi lögin sem við settum 1997, um almanna starfsemi lífeyrissjóða í landinu, hvort þessar viðmiðanir, 10% annars vegar og 5% hins vegar, séu eðlilegar. Á að þurfa að bregðast við jafnbratt án aðlögunar, t.d. ef upp kemur þessi staða varðandi 10%. Það kann að vera að af einhverjum ástæðum, t.d. vegna þess að lífeyrissjóðir hafi fjárfest verulega í tveimur eða þremur stórum fyrirtækjum sem hafi farið illa, jafnvel farið bara á hausinn og fjármunirnir tapast. Við það gætu skapast erfiðar aðstæður í eitt eða tvö ár og við það mundu skuldbindingarnar hrökkva yfir þessar viðmiðanir. Mér finnst spurning hvort vegna slíkra aðstæðna skuli strax gripið til að færa sjóðinn í þá stöðu að hann eigi fyrir 95% af skuldbindingum sínum. Síðan má sjóðurinn ekki bæta stöðuna aftur fyrr en hann er kominn í 105%. Þarna er sem sagt ákveðið bil. Ég velti því fyrir mér hvort þetta á ekki að vera miklu tröpputengdara en að hafa þetta svona bratt. Það er skorið skarpt niður þegar hrekkur yfir ákveðna viðmiðun og síðan þó að sjóðurinn bæti við sig, þarf hann að vera kominn í 105% og vera þar í fimm ár til að hann geta aftur aukið réttindin, að því er mér virðist.

Ég vil leggja það inn í umræðuna hvort eðlilegt væri að endurskoða þessi ákvæði í lögunum um almenna starfsemi lífeyrissjóða, hvort þessi aðgerðaþáttur sé ekki of stífur á ákveðnu þrepi þannig að ekki megi slaka út fyrr en komið er yfir ákveðinn punkt. Menn kunna að þurfa að bíða verulega mörg ár, síðan væri kannski hægt að slaka út auknum réttindum fyrir sjóðfélaga en á 10 til 15 ára tímabili njóta þeir sem lenda í skerðingunni lakari réttinda. Þeir sem á eftir kæmu nytu kannski verulega betri réttinda. Á einhverju ákveðnu tímabili skiptir annars vegar í mikla skerðingu og hins vegar í talsverðan plús. Þess vegna velti ég því fyrir mér, eins og ég gat um áðan, hvort þessi réttindi ættu að aukast í smærri þrepum.