Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 15:40:00 (1601)

2002-11-19 15:40:00# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hér erum við að tala um mjög mikilvæga starfsemi sem fer fram innan Fjármálaeftirlitsins. Ég heyri það á þeim hv. þm. sem hafa talað að þeir eru í öllum aðalatriðum ánægðir með það starf sem þarna fer fram. Það finnst mér gott að heyra. En ég legg áherslu á að Fjármálaeftirlitið starfar mjög sjálfstætt. Þó það sé vistað undir viðskrn. þá eru ekki tengsl þar á milli í raun nema hvað varðar ákvæði sem getið er um í lögum, eins og t.d. það að veita viðskrh. upplýsingar og skýrslu á ákveðnum tímapunkti í sambandi við rekstur.

Ég tek undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það er mjög mikilvægt að vel sé að þessari stofnun búið. Þannig háttar til eins og allir vita að hinir eftirlitsskyldu aðilar greiða kostnaðinn við starfsemina. Þess vegna held ég að erfitt sé að krefjast að þeir hafi ekki neitt um það að segja hvernig þessi rekstur er og hversu umfangsmikill hann er og dýr og þar fram eftir götunum. Ég treysti mér nú ekki til þess að tala gegn því í rauninni.

Hv. þm. talaði um ýmiss konar nöldur sem kæmi fram í þeirra áliti. Það er svona sparðatíningur og ýmsar aðfinnslur kannski, en ekki eru þær nú stórvægilegar.

Hv. þm. kom inn á ræðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins þar sem hann fór yfir mjög mörg mikilvæg atriði, t.d. hvað varðar stjórnir fjármálafyrirtækja. Þar var hann með nokkurn gagnrýnitón þegar hann talar um að þær hafi e.t.v. ekki nægilega yfirsýn. Hann talaði einnig um að áhættustýringu og innra eftirliti í því sambandi væri ábótavant. Þetta er vissulega áhyggjuefni. En þarna er Fjármálaeftirlitið að beita sér. Það er að taka á þessum málum af myndugleika að mínu mati og fara yfir þær leiðir sem eru færar til þess að bæta úr. Það er mikilvægt.

Hv. þm. nefndi verulega fjölgun kvartana sem hefðu komið fram í svari við fyrirspurn hennar. Það er nú kannski ekki hægt að segja að mjög mikið sé um kvartanir. Þó þekkist það að viðskiptavinir kvarti yfir ákveðnum atriðum. Auðvitað væri betra ef það væri algjörlega í lágmarki. En svona er nú þetta.

Hér er náttúrlega tiltölulega ungur fjármagnsmarkaður sem er í mótun. Eitthvað erum við að læra af reynslunni eins og gengur og gerist. Ég tel þó að við í ráðuneytinu höfum staðið okkur allvel í sambandi við að fylgjast vel með ástandinu og reyna að styrkja löggjöfina þegar upp hafa komið atriði sem við höfum talið að bentu til þess að þess væri þörf. Ég nefni t.d. svokallað Skeljungs-mál sem upp kom í fyrra. Þá var strax brugðist við í ráðuneytinu og lagt fram frv. til þess að taka á því.

Hv. þm. talaði um að hún hefði efasemdir um að kína\-múrar dugi, en þetta er sú aðferð sem er almennt beitt. Hún er ekkert íslenskt fyrirbæri heldur er þetta á grundvelli tilskipana. Ég veit ekki hvort hægt sé að benda á aðra betri leið í rauninni. En auðvitað er líka mikilvægt að þessir kínamúrar haldi. Um það snýst málið.

Hv. þm. sem hér töluðu komu báðir inn á stjórnarlaun. Spurningin var hvort þau væru hugsanlega of há eða hvort þau væru sanngjörn. Eins og ég skildi málið þá var frekar verið að gagnrýna það að þau væru óþarflega há. Við verðum að hafa í huga að gerðar eru mjög strangar kröfur til stjórnarmanna í Fjármálaeftirlitinu. Þeir mega t.d. ekki eiga hluti í fjármálafyrirtækjum. Þeir mega ekki taka að sér verkefni fyrir fjármálafyrirtæki, en þau eru nú yfir 200 talsins. Þeir þurfa að gera sérstaka grein fyrir verðbréfaviðskiptum sínum. Því er eiginlega hægt að tala um að umtalsverður fórnarkostnaður sé fólginn í því að taka að sér að sitja í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Litið hefur verið svo á að rétt væri að taka tillit til þessa í sambandi við greiðslu stjórnarlauna og þeirrar ábyrgðar sem þessu starfi fylgir.

[15:45]

En þrátt fyrir þetta sem ég hef hér nefnt eru stjórnarlaun lægri í Fjármálaeftirlitinu en í þeim ríkisstofnunum þar sem samanburðar hefur verið leitað, t.d. í Seðlabanka Íslands. Upphaflega var þetta miðað við bankaráðslaun þar sem eru 85 þús. á mánuði og 13 mánuðir, en hjá Fjármálaeftirlitinu eru það 75 þús. á mánuði fyrir aðalmenn, 150 þús. fyrir stjórnarformann og 50 þús. fyrir varamann.

Þá vil ég nefna í sambandi við varamenn, vegna þess að rætt hefur verið hvort ástæða sé til að þeir séu að mæta á fundi almennt þegar fullskipað er af hálfu aðalmanna en ástæðan er m.a. sú að nokkuð er um vanhæfi vegna þeirra ströngu reglna sem gilda og því þykir mikilvægt að varamenn séu vel inni í málum og geti þannig alltaf verið tiltækir þegar á þarf að halda. En ég segi í sambandi við þetta að allt orkar tvímælis og eðlilegt að þetta sé rætt, en mér finnst erfitt að halda því fram að þetta sé óeðlilegt.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi greiðsluaðlögun og mál sem flutt var af hálfu þingmanna Framsfl. í sambandi við greiðsluaðlögum, sem er rétt. Nú er þetta ekki mál sem ég tel að heyri undir mitt ráðuneyti, þannig að ég á nú erfitt með að flytja mál af því tagi. En það er rétt að í því frv. sem flutt var fólust mikilvæg atriði til bóta fyrir neytendur og viðskiptavini fjármálafyrirtækja. Ég vil geta þess í því sambandi, sem ég hef reyndar sagt frá áður, að ég hef nýlega skipað nefnd í sambandi við samningsskilmála sem er má segja lokahnykkurinn í sambandi við það að koma á góðu skipulagi á fjármagnsmarkaði. Við erum með mikið frv. í efh.- og viðskn. um fjármálafyrirtæki sem varðar rammann, reksturinn, stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja. Við erum með annað frv. sem er líka nokkuð að vöxtum og mjög mikilvægt að mínu mati, sem er um verðbréfaviðskipti. Þar er fjallað um hegðunarreglurnar sem eru ekki síður mikilvægar. En þriðja atriðið sem ég tel mikilvægt að taka á varðar neytendur og eru samningsskilmálar. Nú hefur verið skipuð nefnd til þess að fara yfir þann þátt mála og kynna sér hvernig aðrar þjóðir fara að hvað þetta varðar og vita hvort þarna er ekki nokkur brotalöm hjá okkur. Ég vonast til þess að áður en langt um líður getum við haft eitthvað frá því að segja frekar.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi líka vátryggingamarkaðinn. Um hann er það að segja að Fjármálaeftirlitið hefur skoðað hann og telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir í sambandi við iðgjöld. Hins vegar er það rétt að Samkeppnisstofnun hefur verið mjög lengi að fjalla um kærumál og það er óskandi að það styttist í svör frá stofnuninni. Ég get ekki svarað því hvenær þau birtast, en það er eins með þá stofnun og Fjármálaeftirlitið að hún starfar mjög sjálfstætt þannig að ég er ekki mikið að hræra í þeim graut og er ekki í nánu sambandi við stofnunina.

Að síðustu í sambandi við lífeyrissjóðina. Þar hafa verið gerðar nokkuð alvarlegar athugasemdir en lífeyrissjóðir eða starfsemi þeirra og lög um þá heyra ekki undir viðskrn. Hins vegar er það ekkert launungarmál að fjárfestingarstefnan hefur núna upp á síðkastið verið á þann veg að þeir hafa verið að tapa fé sem er ekki gott. Nú veit ég ekki í rauninni hvað gera skal, en það sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins hefur talað um, líka í sambandi við lífeyrissjóði eins og fjármálafyrirtæki, er að auðvitað bera stjórnir mjög mikla ábyrgð og verða að vera meðvitaðar um það.

Ég held að þetta séu aðalatriðin sem fram komu í máli hv. þm. sem hér töluðu. Ég held ég hafi brugðist bærilega við því. Tek bara undir það að þarna fer fram mikilvæg starfsemi sem er náttúrlega í mótun, en Fjármálaeftirlitið hefur fengið gífurlegt hlutverk í tengslum við lögin um eftirlit með virkum eignarhlutum og ekki fer það minnkandi núna þegar verið er að selja banka og selja stóra hluti í banka sem verður hlutverk Fjármáleftirlitsins að fara yfir og meta þá aðila sem þar er um að ræða, því það er hlutverk Fjármálaeftirlitsins að kveða upp úr um það hvort þeir eru hæfir til þess að eiga virkan hlut í fjármálafyrirtæki.