Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 15:52:15 (1602)

2002-11-19 15:52:15# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir það síðasta sem hæstv. ráðherra sagði um það mikilvæga verkefni sem Fjármálaeftirlitið hefur nú undir höndum að meta þá aðila sem gerður hefur verið samningur við um kaup á þessum bönkum sem er gert með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins og þar hefur stofnunin vissulega mikilvægu hlutverki að gegna og það verður auðvitað grannt fylgst með því verkefni sem Fjármálaeftirlitið er nú að vinna, þ.e. að meta þá aðila eftir þeim ákvæðum sem það á að gera í lögum.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún veitti við fyrirspurnum mínum áðan sem mér fundust ekki fullkomin. Ráðherrann hefði getað svarað betur og þess vegna taldi ég ástæðu til að stíga í pontu á nýjan leik.

Varðandi innherjaviðskiptin og kínamúrana, sem hæstv. ráðherra ræddi nokkuð og taldi að hér værum við að fara að reglum sem notaðar væru víða annars staðar eins og með kínamúrana, þá tel ég að við getum gert betur í því efni og sé auðvitað full ástæða til. Ég talaði fyrir því á síðasta þingi eða þar áður að hægt væri að takmarka með einhverjum hætti það umfang sem verðbréfafyrirtækin hefðu til þess að versla með bréf fyrir eigin reikning á sama tíma og þau væru að sýsla með söfn viðskiptavina sinna, þannig að það eru auðvitað til leiðir ef vilji er fyrir hendi. Ég hygg að í þessu eins og svo mörgu öðru séu það hinir eftirlitsskyldu aðilar sem eru á bremsunum og vilji ekki að farið sé lengra í því efni.

Mér hefur oft fundist í allri þeirri umræðu sem við höfum farið í gegnum með fjármálamarkaðinn eins og ég nefndi áðan, að hinir eftirlitsskyldu aðilar hafi allt of mikil völd og þeir hafi of mikinn íhlutunarrétt um það hvernig löggjöfin um fjármálamarkaðinn og verðbréfamarkaðinn er úr garði gerð. Út af fyrir sig er Fjármálaeftirlitið ekkert öfundsvert að hafa eftirlit með þeim aðilum.

Það er auðvitað ástæða til að nefna það, þegar við erum að tala um verðbréfamarkaðinn og hve nauðsynlegt er að búa þá umgjörð um hann að hann virki þannig að ekki sé um óeðlilega viðskiptahætti að ræða á markaðnum, að það er auðvitað umhugsunarvirði hvernig fjármálamarkaðurinn hagaði sér í kringum kaup og sölu á hlutabréfum í deCODE og það var ástæðan fyrir einum tölulið í þeirri fyrirspurn sem ég bar fram til hæstv. ráðherra um verðbréfaviðskipti. Ástæða er til að rifja það upp að þegar ég spurði um skaðabótaskyldu banka og annarra lánastofnana að því er varðar verðbréfaviðskipti og hlutabréfakaup, að margir hafa farið mjög illa út úr þeim viðskiptum sem þeir gerðu við hlutabréfakaup í deCODE.

Ekki alls fyrir löngu kom fram í blaði viðskiptasaga eins aðila sem lenti illa í því þegar hann hafði keypt hlutabréf í deCODE fyrir 20 milljónir að ráði verðbréfasala, en bréfin hrundu í verði. Margir tóku lán fyrir slíkum kaupum á hlutabréfum þegar gengið var 50 eða 60 á hlut sem síðan datt niður í 2 eða eitthvað álíka. Það eru því margir sem hafa farið mjög illa út úr þeim viðskiptum og maður veltir auðvitað fyrir sér hvernig þetta megi vera, hvernig þetta er til komið, hvernig ráðgjöfinni er háttað og hvort um einhverja hagsmunaárekstra sé að ræða milli þeirra sem eru sjálfir með sölu á þeim bréfum eða álíka fyrir eigin reikning og eru svo að sýsla með eignasöfn viðskiptavina. Það er því full ástæða til, herra forseti, að grannt sé fylgst með þessu á hv. Alþingi.

Varðandi hin miklu vanskil sem ég gerði að umræðuefni, bæði hjá fyrirtækjum og ekki síst hjá einstaklingum, og skuldastöðu heimilanna, þá olli það mér nokkrum vonbrigðum að hæstv. ráðherra, þó hún hefði alveg skilning á frv. um greiðsluaðlögun, þá taldi hún sig ekkert geta beitt sér í því máli af því það snerti ekki ráðuneyti hennar. Ég hef átt sæti í ríkisstjórn og ég geri mér alveg grein fyrir því hvernig verkaskiptingu er þar háttað, en ráðherrar geta auðvitað haft áhrif á gjörðir annarra ráðherra með því að taka málin upp við viðkomandi ráðherra eða í ríkisstjórn. Ég hef ítrekað flutt mál um greiðsluaðlögun og ég veit að það hefur mikinn meiri hluta á þingi ef framsóknarmenn eru sömu skoðunar og þeir voru áður. Það er fyrst og fremst þetta mál sem gagnast skuldugum heimilum og ég hvet ráðherrann til þess, af því hún á nú sæti í ríkisstjórn, að taka þetta upp við dómsmrh. sem ég geri mér grein fyrir að ætti að fylgja þessu máli fram.

En það er annað mál sem er á hennar könnu, það eru raunverulega tvö mál sem snerta verulega skuldug heimili sem ráðherrann hefur ekkert gert í og hreyfir sig lítið í, það eru lögin um ábyrgðarmenn sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur lagt fram frv. um, sem er mál sem snertir mjög neytendur og margir spyrja um. Mér finnst hæstv. ráðherra ekki hafa fundið þær leiðir í því sem eru ásættanlegar og frv. sem við höfum lagt fram í því efni er fyrst og fremst það sem þarf að verða að lögum.

Sama gildir um innheimtulög. Það er í verkahring ráðherra og forveri hennar í stóli viðskrh. flutti einmitt það mál inn í þingið, en síðan hafa sjálfstæðismenn, alveg eins og varðandi greiðsluaðlögunina, setið á því máli og örugglega átt sinn þátt í því að hæstv. ráðherra hefur ekki getað flutt það mál fram, því miður. Ég leyfði mér að taka það mál upp á þessu þingi þannig að það mál er hér í þinginu, nokkuð breytt að vísu þar sem ég fór yfir umsagnir og ýmsa þætti sem komu fram í athugasemdum umsagnaraðila sem fjölluðu um málið þegar forveri núverandi viðskrh. var í stóli ráðherra.

Þetta eru því tvö mál, stór neytendamál sem hæstv. ráðherra getur haft veruleg áhrif á að nái hér fram að ganga og er ástæða til að nefna þau úr því að ráðherra fer hér yfir sviðið og ræðir annað mál sem hún er með á sinni könnu og er að skipa nefnd varðandi samningsskilmála sem ég hygg að sé nú alveg hið ágætasta mál, en ég hygg að hin þrjú saman skipti í raun miklu meiru fyrir neytendur og skuldug heimili.

[16:00]

Hæstv. ráðherra sagðist ekki geta haft bein áhrif á vinnu eða verkefni Samkeppnisstofnunar þegar ég innti hana eftir því hvort ekki væri farið að sjást í þá skýrslu sem Samkeppnisstofnun hefur verið að vinna um samstarf vátryggingafélaga og meint brot á samkeppnislögum. Auðvitað getur ráðherrann haft áhrif á það. Varla þarf að segja hæstv. ráðherra að starfsmenn Samkeppnisstofnunar eru með fangið fullt af verkefnum og komast því hægt áfram. Það sem ráðherrann getur auðvitað gert er að beita sér fyrir því að Samkeppnisstofnun hafi eðlilegt svigrúm til athafna með því að veita henni það fjármagn sem þarf til að hún geti ráðið starfsfólk til að klára þessi verkefni. Hér er um mikilvæg mál að ræða sem snerta alla neytendur og hagsmuni almennings. Ég held að þegar verið er að flytja verkefni, bæði yfir á Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitið sem við erum að ræða, hugi menn sjaldnast að því að þessar stofnanir hafi eðlilega umgjörð til að starfa innan, þ.e. þann mannskap sem þarf til að ekki sé óeðlilegur dráttur á málum. Ég býst við að það sé skýringin á því að Samkeppnisstofnun er ekki búin að skila þessari mikilvægu skýrslu af sér, og á það getur viðskrh. vissulega haft áhrif. Hæstv. ráðherra fór ekki inn á það sem ég nefndi, eitt af því fáa sem ég var ósammála í skýrslu Fjármálaeftirlitsins, þ.e. að í staðinn fyrir að fá aukið fjármagn til að geta ráðið starfsfólk vilja þeir í auknum mæli fá aðkeypta ráðgjafarþjónustu og taka þar undir með hinum eftirlitsskyldu aðilum. Ég hefði gjarnan viljað heyra álit hæstv. ráðherra á því. Við munum örugglega taka þennan þátt upp í efh.- og viðskn.

Ég hef nefnt hér hvernig kostnaður við aðkeypta ráðgjafarþjónustu hefur blásið út á sl. árum. Hér er þetta komið upp í meira en þrjá milljarða sem almenningur þarf að láta á hverju ári í aðkeypta ráðgjafarþjónustu ráðuneyta og ríkisstofnana. Ég tel því ekki að það sé leiðin sem við eigum að fara varðandi Fjármálaeftirlitið, og spyr hæstv. ráðherra um það.