Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 16:17:17 (1605)

2002-11-19 16:17:17# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[16:17]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekki verið látið reyna á hvað hefði gerst á markaði ef hlutabréf þjóðarinnar í ríkisbönkunum hefðu verið sett þangað. Hlutabréfin hafa sveiflast mikið til í verði á markaði. Nú eru þau 4,87 en á sínum tíma, ekki fyrir alls löngu, voru þau 6. Þau hafa verið miklu hærri en þau eru nú. Ýmsir hafa leitt getum að því að ef aðferðafræðin hefði verið önnur þá hefðu bréfin hækkað í verði.

En hvers vegna að leita eftir samstæðu? Er það til þess að fá fjármagn að utan? Var það raunin? Var það til þess að leita eftir samstæðu eða grúppu, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, fá hóp fjárfesta saman? Það er einmitt það sem við höfum verið að gagnrýna mörg hver. Við hefðum talið æskilegra að stuðla eftir megni að dreifðri eignaraðild.

Hin rökin sem stundum hafa verið sett fram eru að með þessu móti megi fá fjármagn frá útlöndum. Í hvorugu tilvikinu, alla vega ekki í Búnaðarbankanum, er um það að ræða að uppistaðan í greiðslunum komi að utan. Það er talað um að svo sé að einhverju leyti í gegnum franskan banka, enn veit enginn hver það er. Það hefur verið gagnrýnt í fjármálaheiminum að það sé allt mjög óljóst og á huldu.

Það þarf ekki lengur vitnanna við. Það þarf ekki annað en skoða fréttir af þessu ferli og sjá hvernig samsetning þess hóps, sem er að bjóða í Búnaðarbankann og hefur fengið blessun ríkisstjórnarinnar, hefur tekið breytingum að undanförnu, ekki bara á undanförnum vikum heldur dögum. Þetta hefur þannig allt verið á hreyfingu. Ljóst hefur það ekki verið og þetta hefur verið gagnrýnt í fjármálaheiminum, að það hafi verið staðið alveg sérlega illa að verki.