Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 16:24:30 (1609)

2002-11-19 16:24:30# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[16:24]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Umræðan sem hér fer fram um eftirlit með fjármálastarfsemi tengist að sjálfsögðu því sem nú er að gerast á fjármálamarkaðnum, sölu á bönkum og alls konar hrókeringum sem eiga sér stað í fjármálaheiminum. Ég held, herra forseti, og held að þjóðin upplifi það þannig líka, að erfitt sé að tala um sérstaka siðvæðingu í þeim efnum. Ég held hins vegar að þörf sé á siðvæðingu.

Ef við lítum á það gífurlega verkefni sem Fjármálaeftirlitið stendur frammi fyrir núna, að hafa eftirlit með þessum fjármálamarkaði, bönkum og verðbréfasjóðum, eftir að þeir eru komnir út á einkamarkaðinn, tel ég ástæðu til að skoða hvernig styrkja megi Fjármálaeftirlitið til að halda trúnaði í fjármálaheiminum hér á landi.

Atgangurinn á mörkuðum síðustu dagana, þar sem menn eru að skipta á hlutabréfum og keppast um yfirráð yfir hinum ýmsu fjármálafyrirtækjum, eykur mér alla vega ekki traust og trúnað á því fyrirkomulagi sem orðið hefur fyrir valinu. Ég hef á tilfinningunni að ég deili þessum áhyggjum með fleirum í þjóðfélaginu. Þarna er bara grímulaus græðgi og valdafíkn á ferð en ekki þjóðhagslegir hagsmunir. Ég upplifi það alla vega þannig.

Mér finnst, herra forseti, ekki rétt að tengja hugsanlega kaupendur að Búnaðarbankanum, þá fyrirtækjasamsteypu, með einum eða neinum hætti Samvinnuhreyfingunni. Fyrirtækin sem þarna eru á ferðinni komust í eign örfárra aðila upp úr endalokum Samvinnuhreyfingarinnar, þ.e. eignir og þjónusta sem voru á hennar vegum. Ákveðnir hópar komust yfir þessar eignir, sjálfsagt á þann löglega hátt sem í boði var. En það er fjarri því að ætla að tengja rekstur og starfsemi þessara fyrirtækja sem núna eru á peninga- og fjármálamarkaðnum, á nokkurn hátt þeirri siðferðislegu sýn og félagshyggju sem samvinnuhugsjónin og samvinnufyrirtækin unnu eftir. Menn geta haft ýmislegt út á starfsemi þeirra að setja eins og hún gekk fyrir sig en þau voru þó í eigu fólksins sem að þeim stóð, sem félagsleg eign og voru ekki ætluð til framdráttar einstaka mönnum eða hópum fólks eða til að þau gætu sölsað undir sig eignir almennings.

Það er algjör skrumskæling að ætla að tengja hugsjónir Samvinnuhreyfingarinnar við það sem er að gerast í kringum kaupin á Búnaðarbankanum. Ég mótmæli því sem gamall og góður samvinnumaður í áratugi. Ég mótmæli því fyrir hönd okkar samvinnumanna að þetta eigi nokkuð skylt við það. Það er fullkomin skrumskæling að blanda því saman og reyndar meira en það. Ég vil bara taka það fram að samvinnuhugsjónin verðskuldar ekki það að vera líkt við þann atgang sem nú á sér stað í kringum kaupin á Búnaðarbankanum, herra forseti.

Það er rétt að leiða hugann að því hvernig þessi fjármálaheimur er að fara. Áður þótti nauðsynlegt að þjónustustofnanir eins og fjármálafyrirtæki, bankar og önnur slík fyrirtæki, væru ekki hagsmunatengd viðskiptavinum sínum, fyrirtækjum eða atvinnurekstri, þar væru engin hagsmunatengsl á milli. En hvað sjáum við nú? Bankarnir, þessar þjónustustofnanir eru að fara í hendur hagsmunaaðila, aðila sem eru jafnframt með sömu banka sem viðskiptabanka sína. Þetta býður náttúrlega heim spillingu en fyrst og fremst því að fjármálaheimurinn verði ekki marksækinn, verði meira upptekinn af því hvernig einstaklingar eða hópar manna nýta þessi tengsl, þessa fjármuni og aðgengi að völdunum til að treysta eigin völd.

[16:30]

Ég þekki þá umræðu aðeins t.d. úr Mið-Evrópu þar sem fyrir nokkrum árum síðan var farin sama leið, þ.e. bankarnir voru farnir að eiga í fyrirtækjunum og fyrirtækin að eiga í bönkunum og bankarnir að eiga aftur í fyrirtækjunum og fyrirtækin að eiga aftur í bönkunum. Þetta var svona rúlletta. Þar var því haldið fram að þessi þróun hefði þau áhrif að fjármálalífið staðnaði og atvinnulífið staðnaði vegna þess að þeir einstaklingar sem þarna véluðu um og valdahópar voru uppteknari af valdajafnvæginu innbyrðis, milli einstaklinga og hópa, en því að þjóðarhagur nyti góðs af. Þar hafa verið settar í gang aðgerðir til þess að snúa þessu við og reyna að tryggja sjálfstæði bankaþjónustunnar frá atvinnulífinu og frá slíkum valdahópum.

Við erum aftur á móti að sigla inn í það ferli að einstakir valdahópar, einstakar atvinnugreinar, fyrirtæki sem eru jafnframt í þjónustu hjá viðkomandi bönkum kaupa sig inn í bankana. Bankarnir kaupa sig aftur inn í fyrirtækin. Fyrirtækin eru tryggð hjá tryggingafélaginu. Tryggingafélagið kaupir aftur hlut í bankanum o.s.frv. Það er bara fullkominn siðlaus skandall sem er að eiga sér stað hér í þessum peningaheimi, að mínu mati, herra forseti, og getur ekki leitt til annars en að þessi markaður allur verði óvirkur og skili ekki þeirri þjónustu sem við þurfum að fá frá þessum aðilum.

Herra forseti. Ég má til með að koma því að að þessi þróun er andstæð því sem gerist í öðrum löndum, svona klíkuþróun. Það getur vel verið, eins og hæstv. viðskrh. sagði, að ágætir framsóknarmenn --- ég dreg það ekkert í efa --- það getur vel verið að það séu ágætir framsóknarmenn sem geti keypt Búnaðarbankann. Vafalaust er að svo, þó að mér finnist náttúrlega að ekki eigi að ,,framsóknísera`` eða gera alla banka að handbendi Framsfl., og ég vona nú að verði ekki. En það er alveg sama hvernig á það er litið, þegar fyrirtæki eru farin að hanga hvert í skotti annars í einni hringekju þá erum við á hreinum villigötum eins og við erum núna varðandi þessar bankahræringar, bankasamsteypur eða kaup á bönkum sem hér tíðkast.

Ég get bara bent á það að ef við spyrjum hæstv. viðskrh. núna á þessari stundu hverjir séu að kaupa Búnaðarbankann þá efast ég um að hæstv. viðskrh. geti svarað því. Hún hefur ekki hugmynd um það vegna þess að fyrir klukkutíma síðan kom hér frétt um að einn af þessum aðilum er búinn að kaupa 25% í öðrum aðila og búinn að selja 30% í hinum aðilanum og núna er ekkert víst hver í rauninni er að kaupa. Frá því fyrir klukkutíma síðan hefur þetta verið á einni hringekju þannig að viðskrh. hefur ekki hugmynd um það í dag hverjum hún er að selja bankann.

Ég verð að segja að það eru dapurleg örlög fyrir Búnaðarbankann sem hefur að hluta til verið menningarstofnun í íslensku samfélagi að lenda í svona löguðum darraðardansi.

Það þarf svo sem enginn að spyrja hér hæstv. ráðherra hvað orðið hafi af málverkunum sem voru þarna innan borðs. Ætti ekki Fjármálaeftirlitið að fylgjast með almennum eignum þessara banka sem verið er að selja, ekki bara peningalegum eignum og viðskiptvild heldur öðrum dýrgripum sem þessir bankar eiga og tilheyra starfsemi þeirra? Það var hægt að taka málverkin frá. Ég spyr hæstv. ráðherra: Var það gert í þessu tilviki nú við sölu Búnaðarbankans? Búnaðarbankinn var menningarstofnun alveg fram á síðustu mánuði og hafði það hlutverk að kaupa málverk og taka þátt í menningarlífi landsmanna en óvíst er hvernig það fer nú þegar þessum darraðardansi lýkur.

Herra forseti. Ég stóð hér upp til þess að bera blak af og verja samvinnuhugsjónina. Samvinnuhugsjónin á ekkert skylt við það sem núna er að gerast við kaupin á Búnaðarbankanum. Þó svo að einstaklingar sem þar eru að véla um hafi á einhverjum tíma unnið sem framkvæmdastjórar eða sem starfsmenn samvinnufélaga á sínum tíma þá eiga þessar aðgerðir sem núna eru í gangi ekkert skylt við samvinnuhugsjónina og fjarri því. Þær eru einmitt andstæða hennar. Það sem nú er verið að að gera varðandi Búnaðarbankann og vinnubrögðin í kringum það mál eru andstæður samvinnuhugsjónarinnar. Það skulu menn hafa á hreinu. Þó að framsóknarmenn eigi þarna í hlut --- þeir voru margir ágætir framsóknarmennirnir á sínum tíma sem voru virkir og báru samvinnuhugsjónina á lofti --- þá er ekki verið að halda samvinnuhugsjóninni á lofti í þessum viðskiptum. Það er af og frá.