Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 16:36:20 (1610)

2002-11-19 16:36:20# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[16:36]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var eiginlega þetta sem hv. þm. sagði núna í lokin sem varð til þess að ég ákvað að koma hérna upp, af því að ef hv. þm. er samvinnumaður, sem hann segist vera og ég efast ekki um í raun, hvernig getur hann þá verið á móti því að félög sem hugsanlega tengjast hinni ágætu samvinnuhreyfingu eignist banka. Hvernig getur hann verið á móti því? Vill hann þá ekki að samvinnufyrirtæki eigi í fjármálafyrirtækjum?

Nú er það svo að við höfum breytt lögum um samvinnufélög þannig að hægt er að breyta samvinnufélögum í hlutafélög. Það er bara í takt við tímann. Það er margt breytt og við verðum að horfa á þær breytingar sem verða á markaðnum og þær breytingar sem verða í löndunum í kringum okkur og reyna að gera fyrirtækjum kleift að standa sig í samkeppni, hvort sem það er hér á Íslandi innan lands eða við önnur lönd. Við erum á innri markaði Evrópu. Þetta hefur þær afleiðingar að við hljótum að reyna að taka mið af aðstæðum.

Þegar samvinnufélög eða félög sem tengjast samvinnuhreyfingu vilja eignast banka og hv. þm., sem er samvinnumaður, vill það ekki þá er eitthvað sem gengur ekki alveg upp í höfðinu á mér. Þegar hann segir að ég viti ekki hverjir eru að kaupa bankann þá er það nú einu sinni þannig að það er ekki búið að ganga frá þessum kaupum. Það er ekki búið að ganga frá kaupunum.

Og af því að hv. þm. voru að tala um --- og það var bara nánast eins og það væri hneyksli --- að ekki yrði borgað fyrir áramót þá er það einfaldlega vegna þess að það gefst ekki tími. Við verðum ekki búin að ganga frá þessu fyrir áramót. Þetta á allt saman eftir að fara í gegnum Fjármálaeftirlitið og skoðast þar. Þannig er þetta. Það vill svo til að áramótin eru alltaf á sínum stað og það er ekkert voðalega langt í þau.