Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 16:38:27 (1611)

2002-11-19 16:38:27# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[16:38]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil áfram verja samvinnuhugsjónina fyrir þessum atgangi sem hér er í gangi. Ég get ekki séð neina samvinnuhugsjón eða ákvarðanir teknar á grundvelli samvinnuhugsjónarinnar í Vátryggingafélagi Íslands þegar verið er að selja það til eða frá. Ég get ekki séð að fyrirtækið Hesteyri, með leyfi forseta, sem hefur verið nefnt hugsanlegur kaupandi hér, starfi neitt á grundvelli hugsjóna samvinnuhreyfingarinnar. Ég get ekki séð að fyrirtækið Ker hf., sem þarna er líka nefnt sem kaupandi, starfi á vegum samvinnuhreyfingarinnar. Eða hvar eru hinar félagslegu samþykktir fyrir þessi fyrirtæki, slík almenningsfyrirtæki? Ég get ekki heldur séð að Olíufélagið, eða áður Olíufélagið, sé neitt samvinnufélag og starfi á þeim grundvelli. Þetta eru nokkur af þeim fyrirtækjum sem hafa verið nefnd sem hugsanlegir kaupendur.

Það er náttúrlega, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, einhvers konar safnhópur sem maður veit ekki hver er frá degi til dags, sem er að kaupa. Þarna eru mörg önnur fyrirtæki en ég get ekki séð að nokkurt þeirra starfi á grundvelli samvinnuhugsjónarinnar eða eftir leikreglum hennar. Við hæstv. viðskrh. erum nú bæði samvinnufólk, a.m.k. unnum við saman á árum áður á þeim grunni og berum ábyggilega bæði virðingu fyrir samvinnuhugsjóninni. En það sem þarna er á ferðinni á ekkert skylt við það, þó svo að einstakir menn eða einstakar blokkir hafi komist til áhrifa á grundvelli eigna samvinnuhreyfingarinnar þegar starfsemi hennar var slitið.