Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 16:40:45 (1613)

2002-11-19 16:40:45# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[16:40]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi hugtök í viðskiptalífinu, kolkrabbi og smokkfiskur, eru náttúrlega mér hvorki töm né kær. Ég vil líka undirstrika það aftur, virðulegi forseti, hversu langt við erum komin frá samvinnuhugsjóninni þegar við ræðum um þessi fyrirtæki í tengslum við hana og farið er að blanda því saman að hugsjónir samvinnuhreyfingarinnar liggi að baki því þegar einstakar valdablokkir, þó að þær tengist Framsfl., sölsa undir sig einn besta banka þjóðarinnar. Málið snýst ekki um það.

Virðulegi forseti. Ég benti líka hæstv. ráðherra á hversu siðspillt það er í samfélagi okkar þegar fyrirtæki eða samsteypa atvinnufyrirtækja kaupir hlut í viðskiptabankanum sínum og viðskiptabankinn kaupir svo aftur hlut í sama fyrirtæki, fyrirtækið kaupir tryggingafélagið sem það tryggir hjá, tryggingafélagið kaupir síðan hlut í fyrirtækinu, fyrirtækið og tryggingafélagið kaupa svo hlut í viðskiptabankanum. Allt er þetta í einum graut. Svona uppstilling hlýtur að virka lamandi á allt heila kerfið til nokkurs tíma þó að þetta sé spennandi meðan menn keyra um í svörtum bílum og klæðast svörtum frökkum og hvítri skyrtu meðan á þessu stendur.

En tengið þetta ekki samvinnuhreyfingunni fyrir alla muni þó svo að einhverjir framsóknarmenn séu þarna að verki.