Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 16:51:31 (1615)

2002-11-19 16:51:31# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[16:51]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í umræðuna en ég get ekki orða bundist vegna orða hæstv. viðskrh. áðan. Ég trúði varla mínum eigin eyrum, grímulaus framkoma með að flokka einstaklinga og fyrirtæki í landinu eftir stjórnmálaflokkum. Hæstv. ráðherra sagði að Vinstri grænir ættu ekki fólk í viðskiptalífinu, það ættu Framsfl. og Sjálfstfl. Ég held, virðulegi forseti, að í öllum öðrum löndum væri þetta talin mjög alvarleg framsetning af ráðherra að vera.

Og það er því alvarlegra að hæstv. iðnrh. grípur gjarnan til þess að við verðum að vera á svipuðum nótum pólitískt séð hvað varðar efnahagslega stjórn eins og nágrannalöndin. Ef menn stæðu frammi fyrir því að menn úttöluðu sig í hæstu stöðum ríkisins í öðrum löndum, nágrannalöndum, grímulaust að skipta upp viðskiptalífinu á milli tveggja flokka af fimm sem eru á hina háa Alþingi Íslendinga, þá væru nú menn víðast hvar í vondum málum. Er það ekki? Ég held að það sé augljóst.

Hvað mega önnur fyrirtæki í landinu þá hugsa? Fyrirtæki sem eru utan við þær púllíur sem verið er að mynda. Verða þau að hugsa sinn gang á hvorn hestinn þau ætla að veðja, hvort þau ætla að nudda sér utan í Framsfl. eða Sjálfstfl.? Hvað ætla menn að ganga langt í þeirri hugsun? Átökin í viðskiptalífinu eru gríðarleg og hæstv. viðskrh. segir gjarnan að menn séu að gera þessa hluti allt í kringum okkur. En við skulum gá að því á hvaða grunni menn eru að breyta efnahagskerfi sínu.

Það er gjörbreytt dæmi hvort við erum að tala um Bretland, Svíþjóð eða t.d. Rússland, þar sem Rússland hafði gríðarlega miklar ríkiseignir og náttúrlega öll austantjaldslöndin. Hamagangurinn við svokallaða einkavæðingu í öllum þeim löndum sem byggðu mikið á félagslegum rekstri eins og við, miklum ríkisrekstri og miklum samvinnurekstri, hefur nú ekki gengið par vel fyrir sig og er nú aldeilis víti til varnaðar vegna þess að sala ríkiseigna í öllum þessum löndum hefur haft hrikalegar hliðarverkanir. Ég vil helst ekki taka mér í munn hvað verður úr slíku, en ætla þó að gera það. Mafían í Rússlandi er mjög sterk og í öllum þeim löndum þar sem menn hafa komist með forréttindum yfir ríkiseignir á algjöru tombóluverði.

Staða Íslands, þó að hún sé ekki sambærileg, er miklu hliðstæðari því sem við vorum með fyrir 10-20 árum, með okkar sterku samvinnuhreyfingu og kaupfélög og síðan mikinn ríkisrekstur, hlutfallslega miklu meiri en í öðrum löndum. Og um þetta snúast átökin, hvernig verið er að fara með ríkiseignir og hvernig verið er og búið er að fara með samvinnurekstur. Það er allt annar grunnur að vera með samvinnuhlutafélag eða samvinnufélag sem er búið að breyta í ,,háeff`` eða að vera með samvinnufélag. Ég þekki það ósköp vel vegna þess að ég hef verið meðlimur í Kaupfélagi Eyfirðinga frá því ég fæddist held ég, kannski eins eða tveggja ára var ég settur inn í það félag og hef ævinlega verið þar innan borðs.

En breytingar á þessum félögum í hlutafélög hafa náttúrlega leitt af sér gríðarlegar, óheillavænlegar breytingar. Og það kemur ekki bara við samvinnumennina sem slíka því að samvinnufélögin höfðu þó innan borðs ekki bara framsóknarmenn heldur alþýðu landsins, bændur og sjómenn, og þurftu þeir ekkert að vera félagsbundnir í Framsfl. til þess að geta munstrað sig inn í samvinnufélög. En það er þessi breyting frá samvinnufélögum og yfirtaka eigna yfir í hlutafélög sem menn eru að tala um og hvernig menn með baktryggingu í þeim eignum eru að koma sér upp nýju veldi. Þetta er öllum himinljóst.

Eins og ég segi, bakhliðarnar eru nú ekkert frýnilegar að horfa á, eins og t.d. samþjöppun í afurðastöðvamálum, ef við tökum bara mjólkursamlögin, fækkun og stækkun þeirra, og síðan á seinni stigum í krafti hlutafélagavæðingar er verið að selja bændum aftur hlut sinn í mjólkursamlögunum. Hvar endar þetta ráðslag? Auðvitað endar það hvergi annars staðar en á borði neytenda. Hér er sýknt og heilagt verið að tala um að hið stóra vandamál landbúnaðarframleiðslunnar í landinu sé hátt vöruverð hvað varðar framleiðslu af því tagi, mjólk og kjöt. Nákvæmlega það sama átti sér stað með róteringu á kjötmarkaði og kjötvinnslumarkaði með afleiðingum fyrir landbúnaðinn sem menn eru ekkert búnir að bíta úr nálinni með, vegna þess að sennilega gerði Goða-ævintýrið það að verkum að menn standa frammi fyrir minnkandi sölu á lambakjöti.

Þetta er því gríðarlega stórt móralskt dæmi sem hér er verið að tala um og á ekki að gera lítið úr því, og náttúrlega alls ekki að leyfa sér að halda það að einhverjir flokksmenn tveggja flokka hafi einhver forréttindi til að stunda verslun og viðskipti í landinu. Hvílík firra. Og hvílík skilaboð til verslunarinnar og viðskiptalífsins í landinu ef það er hugsun manna sem stjórna hér ferðinni, og þar með hæstv. iðnrh. í broddi fylkingar, að þarna verði bara menn að vera innan borðs ef þeir eiga að vera gjaldtækir inn á þennan markað. Þetta er vont fyrir landið, það gefur alveg augaleið, að halda því blátt áfram fram að svona þurfi hlutirnir að ganga fyrir sig til að menn geti vasast í þeim eignum sem verið er að setja á markað.

Það er vandasamt að selja og breyta um kerfi. Það er ekkert launungarmál að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er á móti því, við höfum viljað halda í þessi stoðkerfi, eins og bankana og heilbrigðiskerfið, það er öllum ljóst. Við höfum viljað styðja við bakið á samvinnuhreyfingu og samvinnurekstri, það er líka ljóst. Það að fara með því offorsi sem hér er farið fram með í sölu og umbreytingu á ríkiseignum yfir í hlutafélög er ekki gott þegar upp verður staðið. Það er í raun og veru alveg merkilegt að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa litið til þeirra landa sem hafa staðið í þessu af miklu kappi kannski í svipaðan árafjölda og við höfum verið að gera, eins og Rússar og allt austantjaldsbatteríið, með hrikalegum hliðarverkunum sem menn eru ekkert búnir að bíta úr nálinni með.

Virðulegi forseti. Ég vildi að þetta kæmi fram. Í öllum öðrum löndum, sem hæstv. iðnrh. vill svo gjarnan bera sig saman við væri framsetning af þessu tagi talin pólitískt séð mjög alvarleg frá ráðherra í ríkisstjórn.